Jeep Compass veldur vonbrigðum

 

 Euro NCAP hóf starfsárið 2012 með því að árekstursprófa tvo nýja bíla, sem þar með eru þeir fyrstu „taka prófið“ eftir að kröfur voru verulega hertar um sl. áramót. Báðir bílarnir eru af nýjustu kynslóð og verulega breyttir frá fyrri gerðum. Þeir eru Jeep Compass og Honda Civic. Árangur jeppans veldur vonbrigðum en hann fékk einungis tvær stjörnur. Nýja Hondan hlaut hins vegar fullt hús stiga.

Sjálfu prófunarferlinu var breytt verulega hjá EuroNCAP 2009. Síðan þá hafa kröfurnar að baki stjörnugjöfinni verið hertar jafnt og þétt á hverju ári. Þær eru þannig nú í stórum dráttum að til að hljóta fimm stjörnur verður bíll að hafa fengið amk. 80 prósent þeirra stiga sem gefin eru fyrir samanlagðan árangur bíls í einstökum prófunarþáttum. Fyrir vernd fullorðinna skal bíll nú hljóta 80 prósent þeirra stiga sem gefin eru fyrir þennan þátt, 75 prósent þeirra stiga sem gefin eru fyrir vernd barna, 50 prósent þeirra stiga sem gefin eru fyrir vernd fótgangandi sem fyrir bílnum verða, og 60 prósent þeirra stiga sem gefin eru fyrir slysavarnabúnað og –tækni sem í bílnum er. Ein tegund slysavarnarbúnaðar; ESC stöðugleikabúnaður, verður að vera í bíl ef fimmta stjarnan á yfirleitt að koma til greina. Án ESC getur bíll þannig ekki hlotið fimmtu stjörnuna. Stöðugt hertar kröfur EuroNCAP hafa skilað neytendum sífellt betri og öruggari bílum og það endurspeglast án nokkurs vafa í mjög mikilli fækkun dauðaslysa í ríkjum Evrópu og N. Ameríku undanfarin ár.

Árangur Jeep Compass  veldur vonbrigðum en hann hlaut einungis tvær stjörnur af fimm. Árangur þessa nýhannaða jeppa var undir væntingum í öllum prófunargreinum samanlögðum og einna sístur í árekstri frá hlið.

Öðru máli gegndi með Honda Civic. Þetta er níunda og nýjasta kynslóð þessarar gerðar af Honda. Allur hefðbundinn öryggisbúnaður er til staðar og til viðbótar er fáanlegur sjálfvirkur radarstýrður neyðarhemlunarbúnaður til að bregðast við ef árekstur er í uppsiglingu. Búnaðurinn nefnist CMBS eða Collision Mitigation Brake System og hefur hlotið sérstaka viðurkenningu EuroNCAP árið 2010.

Af öllum þeim bílum sem árekstursprófaðir voru á síðasta ári samkvæmt eldri kröfunum reynast átta vera fimm stjörnu bílar samkvæmt nýju kröfunum sem gengu í gildi um sl. áramót. Þeir eru BMW 1 línan, BMW X1, Ford Focus, Ford Ranger, Mercedes M-línan, Nissan LEAF, Subaru XV og Volvo V60.

Dr. Michiel van Ratingen stjórnarformaður Euro NCAP segir að niðurstöðurnar nú staðfesti að fimm stjörnur nú þýði allt annað og meira en fyrir fáum árum. Margir bílar hafi þróast til betri vegar og hið sama hafi EuroNCAP gert. Prófunin nú sýni að bílar sem byggðir eru samkvæmt eldri tækni og hönnun en flikkaðir upp til að sýnast nýir af nálinni séu alls ekki eins öruggir og þeir bílar sem raunverulega eru nýir í hólf og gólf.