Jeep í meðvindi

Hið gamalgróna Jeep er það vörumerki innan Fiat/Chrysler-samsteypunnar sem einna mestur uppgangur og gróska er í um þessar mundir. Ljóst má vera að sameining Chrysler/Jeep og Fiat árið 2009 hefur verið mikil vítamínsprauta fyrir Chrysler og Jeep ekki síst. Langflestar nýjungar sem gefur að líta á bílasýningunni í Detroit eru til staðar á sýningarsvæði Jeep á bílasýningunni í Detroit sem nú er senn á enda, og margar fleiri nýjungar á leiðinni.

Nýliðið ár var metár í framleiðslu og sölu nýrra Jeep bíla en þá seldust rétt rúmlega 700 þúsund Jeep bílar. Fyrra metárið var 1999 en þá seldust alls 675 þúsund bílar. „Við hefðum getað selt 900 þúsund bíla en framleiðslugetan var ekki nægileg,“ sagði Sergio Marchionne forstjóri Fiat/Chrysler á blaðamannafundi á Detroit bílasýningunni. Hann sagði að nú væri verið að bæta úr því. Verksmiðjur Jeep í Bandaríkjunum verða endurnýjaðar og uppfærðar og framleiðsluvöktum fjölgað í þeim. Alls verður varið 1,8 milljörðum dollara til nýsköpunar og endurbóta í framleiðslu Jeep og fær verksmiðjan í Toledo í Ohio  heilar 500 milljónir dollara af því fé.

Svipaða sögu er að segja frá Evrópu því að milljarði evra verður varið til þess að endurbæta verksmiðju Fiat í Melfi á Ítalíu en þar á að byggja nýjan Fiat 500 X og einnig nýjan Euro-Jeep sem væntanlegur er einhverntíman á næsta ári.

Loks er verið að undirbúa framleiðslu á Jeep bílum í Kína og Rússlandi, en á þessum markaðssvæðum verða bílar í boði sem sérstaklega eru ætlaðir þarlendum kaupendum. Framleiðslan í Kína hefst fljótlega en eitthvað síðar í Rússlandi.

Jeep bílar, sérstaklega þó Cherokee og Wagoneer hafa lengi verið meðal vinsælustu jeppa á Íslandi og það þótt ekkert eiginlegt sérhæft sölu- og þjónustuumboð hafi verið til staðar um langt skeið. Það vekur óneitanlega nokkra furðu að svo skuli ekki vera og sérstaklega nú þegar Fiat og Chrysler eru saman í einni sæng og frá þeim streymir hver nýjungin af annarri og fáir ef nokkur bílaframleiðandi getur boðið neytendum jafn fjölbreytt úrval af gæðabílum.

Af nýjungum sem vænta má frá Jeep/Chrysler/Fiat á þessu ári er nýr arftaki Jeep Liberty sem hætt er að framleiða. Hann verður með nýrri níu hraða sjálfskiptingu og Sergio Marchionne segir að af þessum bíl sé stefnt að því að selja minnst 200 þúsund eintök á þessu ári. Áætlanir geri ráð fyrir að alls seljist 800 þúsund Jeep bílar af öllu tagi á árinu og ekki muni líða á löngu áður en salan fari yfir milljón bíla markið.

Það segir sína sögu um ganginn hjá Jeep um þessar mundir að tvær nýlegar gerðir; Compass, sem myndin er af og Patriot verða leystar af hólmi strax á næsta ári þrátt fyrir að búið sé að gera margar og góðar endurbætur á nýjustu árgerðum þeirra.