Jeep og Alfa Romeo jeppar frá Torino

Sergio Marchionni forstjóri Fiat og Chrysler tilkynnti fyrir helgi að til stæði að fjárfesta fyrir milljarð evra í aðalverksmiðju Fiats, Mirafiori verksmiðjunni í Torino á Ítalíu. Þar á svo að framleiða nýjar bílagerðir og þeirra á meðal nýjan jeppa eða jeppling bæði undir merkjum Jeep og Alfa Rome. Nýju gerðirnar eiga að koma á markað 2012

Endurbæturnar og nýframkvæmdirnar í Mirafiori verksmiðjunni eiga að verða tilbúnar á síðasta ársþriðjungi 2012 og bílar byggðir á nýrri grunnplötu sem kallast Compact Wide Platform byrja þá að renna af færiböndunum. Þetta verða bílar í bæði C og D flokki. Meðal bílanna verður Alfa Romeo Giulietta og nýr bíll, arftaki Alfa 159 og nýr jeppi sem leysir Jeep Patriot -bílinn á myndinni- af hólmi.

Þessi Compact Wide Platform verður  grunnur nýrra jeppa- og jepplinga frá samsteypunni sem seldir verða á öllum markaðssvæðum Fiat og Chrysler, Bandaríkjunum þeirra á meðal. Það verður þannig nokkurt nýmæli fyrir Bandaríkjamenn að fá Jeep jeppa frá Ítalíu.

Eftir fréttum að dæma virðist sem sameining Fiat og Chryslers hafi hleypt nýju lífi í bæði vörumerkin sem eru í talsverðri sókn beggja vegna Atlantshafsins. Meira að segja Fiat bílar eru farnir að fást í Bandaríkjunum eftir tæplega tveggja áratuga fjarveru og nýjasta gerð Jeep Grand Cherokee selst vel ekki síst í Bandaríkjunum.