Kangoo við það að velta

http://www.fib.is/myndir/Kangoovelt.jpg

ADAC, systurfélag FÍB í Þýskalandi tók nýlega í elgspróf þrjá vinsæla litla sendibíla sem einnig eru framleiddir sem fjölnotabílar fyrir fjölskylduna. Bílarnir eru Citroen Berlingo, Renault Kangoo og Volkswagen Caddy. Kangoo bíllinn stóðst elgsprófið illa og var nálægt því að velta þrátt fyrir að vera búinn ESC stöðugleikakerfi. Að prófinu loknu hvatti ADAC Renault til að endurstilla stöðugleikakerfið þannig að það brygðist fyrr við í neyðarástandi. Ella yrði að vara kaupendur við bílnum. Renault brást skjótt við og tæknimenn vinna nú að endurforritun búnaðarins og verklagi við innköllun bílanna til að uppfæra hugbúnaðinn sem stýrir stöðugleikakerfinu.

Elgsprófið er staðlað próf sem fer þannig fram að ekið er í krákustígum milli keila sem staðsettar eru í beinni línu með tilteknu millibili. Prófið er til þess að komast að því hvernig bíllinn bregst við ef skyndilega þarf að beygja frá óvæntri hindrun sem skyndilega birtist á vegi, t.d. manneskju eða þá skepnu.

Lang flestir bílar sem búnir eru ESC stöðugleikabúnaði standast þetta próf tiltölulega auðveldlega og margir spjara sig bærilega í því án búnaðarins. Því kom það nokkuð á óvart að bíll með ESC skyldi lenda í umtalsverðri hættu á að velta í prófinu. Snögg viðbrögð tilraunaökumannsins í prófinu komu í veg fyrir það. 
http://www.fib.is/myndir/Kangoovelt2.jpg