Kannið olíustöðuna á 1.000 km fresti

Það þarf rétt eldsneyti, rétta smurolíu og viðeigandi viðhald til að tryggja eðlilega endingu og mjúkan gang bensín- og dísilvéla. Sérfræðingar frá þýska skoðunarfyrirtækinu DEKRA, sem er öflugasta bílaskoðunarfyrirtæki Evrópu, segja að gott eftirlit og viðhald dragi verulega tíðni alvarlegra vélarbilana.

Olíuþrýstingsljósið í mælaborði bíla er stílfærð mynd af olíukönnu. Viðvörunarljósið er ábending um olíuþrýsting en ekki olíustöðu.

Ef olíuþrýstingsljósið tendrast í akstri þá er aðeins eitt til ráða að drepa strax á bílnum (á öruggum stað) og hafa samband við verkstæði. Sama á við ef olíuþrýstingsljósið helst logandi í nokkrar sekúndur eftir ræsingu. Of lágur olíuþrýstingur getur leitt til alvarlegs tjóns á vélum.

Rétt olía á réttum tíma

Ef olíuskipti eru hunsuð eða smurolían notuð of lengi getur olían á vélinni orðið hættulega seig og sótug. Smureiginleikar olíunnar minnka sem veldur skemmdum á vél eða vélarhlutum og túrbínum. Ef notuð er röng olía eða olía með ranga seigju, er líklegt að það geti skaðað vél. Ef sett er of mikil olía á vélina þá getur það skemmt hvarfakútinn.

Þegar skipt er um olíu verður nýja olían að uppfylla þær kröfur og staðla sem framleiðandi bílsins tilgreinir í eigenda- handbókinni.

Skipta á um smurolíu á flestum nýjum bílvélum á 15.000 til 30.000 km fresti (að teknu tilliti til akstursnotkunar). Sama á við um svokallaðar “long-life” smurolíur sem eru framleiddar með lengri endingu í huga eða allt að 30.000 km akstur.

Sótmyndun er mest í bílum sem ekið er stuttar vegalengdir og vélarnar ná því sjaldan upp fullum og eðlilegum vinnsluhita. Í þannig notkun þarf einfaldlega að skipta oftar um olíu miðað við ekna kílómetra, heldur en í bílum sem notaðir eru til langkeyrslu.

Olíusmit

Oft má finna olíusmit og olíuleka á vélum bíla. Samkvæmt út tekt DEKRA þá fannst olíusmit eða olíuleki á 8 prósent þeirra bíla sem fyrirtækið skoðaði árið 2016. Í einu af hverjum sjö tilvikum (14% olíusmitaðra) var olíusmitið flokkað sem alvarleg skemmd. Ef bíleigandi verður var við olíuleka t.d. olíubletti á stæði undir bílnum þá verður að kanna málið nánar og leita álits fagaðila.

Hér fyrir neðan má sjá ábendingar frá DEKRA til að tryggja mjúkan gang vélar

• Sinnið viðhaldi og umhirðu bílsins í samræmi við fyrirmæli framleiðanda

• Kannið olíustöðuna á 1.000 km fresti og áður en haldið er af stað í langferð

• Bætið réttri olíu á vélina strax ef olíustaða er lág

• Fylgið leiðbeiningum framleiðanda um smurþjónustu og olíuskipti

• Gætið að því að skipta um olíu á réttum tíma

• Notið olíu sem uppfyllir staðla framleiðanda

• Ef olíuleka verður vart á strax að leita álits fagaðila og gera við skemmdirnar

• Ef olíuljósið tendrast á að stöðva strax og láta flytja bílinn á verkstæði

• Hversu oft athugar þú olíuna á bílnum þínum?