Kapphlaup í rafgeymaiðnaðinum

Um þessar er mjög veðjað á rafbíla sem framtíðarakost. Það er auðvitað ekkert undarlegt því að loksins í rúmlega aldarlangri sögu bílsins eru að koma fram rafgeymar sem  duga til að gefa rafbílnum það notagildi sem nauðsynlegt er. Fjöldamargir ætla sér nú stóran hlut og fjárfesta sem óðast í rafgeymaverksmiðjum út um allan heim. Ef fram fer sem horfir verða rafgeymaverksmiðjur á endanum miklu fleiri en þörf er fyrir. Framleiðslan er nú þegar orðin tvöfalt meiri en eftirspurnin.

Þýska ráðgjafafyrirtækið Roland Berger Strategy Consultans sem er með starfsstöðvar í 25 löndum hefur skoðað þennan vaxandi iðnað og niðurstaðan er ekkert sérlega uppörvandi fyrir fjármagnseigendur.

20 stærstu framleiðendur líþíumrafgeyma, þeirra á meðal LG í Kóreu, Sony/AESC í Japan og nokkur kínversk fyrirtæki, hafa nú þegar fjárfest yfir 1.800 milljarða ísl. kr. í nýjum verksmiðjum í því skyni að freista þess að ná frumkvæði og forskoti á keppinautana, því að til að starfsemin skili hagnaði þarf hún að vera mjög umfangsmikil.

Samkeppnin er því þegar orðin gríðarlega hörð og verð líþíumgeymanna tekið að lækka hröðum skrefum sem auðvitað kemur neytendum til góða. En Roland Berger telur að offjárfestingin muni með tímanum leiða til rekstrarvandræða og jafnvel gjaldþrota, samþjöppunar og samruna í greininni sem leitt geti til fáokunar. Í skýrslu Roland Berger segir að af þeim 20 fyrirtækjum sem voru undir smásjánni nú muni einungis átta verða eftir á lífi árið 2017.