Kaupin loks frágengin

http://www.fib.is/myndir/Jag_landrover.jpg

Tata Motors í Indlandi er orðinn eigandi bresku bílamerkjanna Jaguar og Land Rover. Kaupverðið er 2,3 milljarðar dollara og er greitt út í hönd. Tilkynningin um kaupin var send út fyrir skömmu.

Tata Motors yfirtekur rekstur verksmiðja Jaguar og Land Rover og er áætlað að starfsemin verði að fullu komin í hendur Tata um mitt árið. „Við berum mjög mikla virðingu fyrir bílamerkjunum tveimur og munum leitast við að varðveita þau og varðveita og styrkja arfleifð þeirra og samkeppnishæfi og í engu hrófla við sérkennum þeirra hvors um sig,“ segir Ratan Tata forstjóri Tata Motors í fréttatilkynningu.