Kaupmannahöfn greiðfær á bíl

 http://www.fib.is/myndir/Frueplads.jpg

Í samanburði á bílaumferð og umferðarhraða í 14 evrópskum höfuðborgum er maður fljótastur í förum á bíl í Kaupmannahöfn. Berlingske Tidende greinir frá þessu. Danskir fjölmiðlar hafa hins vegar lengi gert mikið úr umferðarþunga í borginni og borgaryfirvöld hafa um talsvert skeið haft það ofarlega á blaði að leggja sérstakan þrengslaskatt á bílaumferð á miðborgarsvæðinu.

Það er danska samgönguráðuneytið sem hefur tekið saman þessa samanburðarskýrslu og samkvæmt henni er umferðin lang greiðust um þjóðvegi og tengibrautir hinnar dönsku höfuðborgar og er meðalhraðinn á þeim 50 km á klst. Í Stokkhólmi, Berlín og Madrid er meðalhraðinn 36 km á klst. Enn hægari er hann í París, London, Lissabon, Vínarborg og Róm og hægastur er hann í Búdapest í Ungverjalandi – rétt rúmlega 20 km á klst.

Hversu umferðin er greið í Kaupmannahöfn þakka skýrsluhöfundar góðu vega- og gatnakerfi, öflugum almannasamgöngum og mikilli reiðhjólanotkun fólks. Fleiri persónur ferðist saman í bíl í Kaupmannahöfn en í nokkurri annarri þeirra borga sem fjallað er um auk þess að hærra hlutfall fólks fer leiðar sinnar fótgangandi.