Kaupstaður í 150 ár

Í gær voru 150 ár liðin frá því að Akureyri var skilgreind sem kaupstaður – fékk kaupstaðarréttindi eins og það kallast. FÍB óskar íbúum Akureyrar til hamingju með afmælið og óskar þess jafnframt að afmælisárið og ókomin ár verði þeim góð og gjöful.

http://www.fib.is/myndir/Akureyri1863.jpg
Akureyri 1863, árið eftir að bærinn fékk kaupstaðarréttindin.

FÍB hefur um langt árabil átt mikið og gott samstarf við Akureyringa og Akureyri er ein mikilvægasta starfsstöð félagsins. Á Akureyri á félagið sér öfluga samstarfs og umboðsaðila eins og Securitas á Akureyri sem annast svörun í neyðarsíma FÍB-Aðstoðar um nætur og helgar og Bílabjörgun, sem sér um hjálpar- og neyðarþjónustu félagsmanna á þjónustusvæði Akureyrar og utan þess. Á Akureyri er er ennfremur fjöldi samstarfsaðila félagsins - fyrirtækja sem veita félagsmönnum margvísleg afsláttar- og sérkjör.

Þá hafa umboðsmenn félagsins á Akureyri alla tíð verið valinkunnir og ósérhlífnir sómamenn sem töldu aldrei eftir sér að aðstoða félagsmenn og aðra sem til þeirra leituðu, og svo er enn. Allt hefur þetta leitt til þess að félagastofninn á Akureyri hefur stöðugt vaxið og dafnað og hefur sjaldan eða aldrei  í 80 ára sögu félagsins verið stærri og öflugri.

Um Akureyri hafa hafa alla tíð leikið alþjóðlegir straumar sem hafa verið samfélaginu lífsafl og eflt almenna víðsýni og frumkvæði. Í þessum anda varð Akureyri vagga flugsins á Íslandi og bærinn var um skeið mesti iðnaðarbær landsins og nú er hann vagga menntunar og menningar á Norðurlandi. Þessi andi frumkvæðis og víðsýni er enn ríkjandi. Lítið dæmi en alls ekki lítilvægt er að á Íslandi hafa menn þrefað um það áratugum saman að koma upp góðu kennslusvæði fyrir akstur en ekkert orðið úr. Akureyringar tóku lítinn þátt í þessu þrasi, þeir bara gerðu hlutina þegjandi og hljóðalaust og komu sér upp slíku svæði sem þegar er tekið til starfa.