Kemst hátt í 500 km án nokkurs útblásturs

http://www.fib.is/myndir/Chevy-Volt.jpg
Chevrolet Volt.

General Motors vinnur nú hörðum höndum við rafmagnsbílinn Chevrolet Volt sem sýndur var í fyrsta sinn á bílasýningunni í Detroit í vetur. Bíllinn er nú til sýnis á alþjóðlegu bílasýningunni í Shanghai í Kína en í annarri útfærslu en í Detroit.

Í Detroit var bíllinn sýndur með litlum bensínmótor úr Opel Corsa sem knúði rafal til að framleiða straum til að knýja bílinn. Bíllinn er þannig gerður að hann á að fá orkuna fyrst og fremst þannig að honum er stungið í samband við heimilisrafmagnið og þá hlaðast rafgeymarnir upp. Ljósamótorinn í honum sér svo um að viðhalda straumi á rafgeymunum þegar lækka tekur á geymunum í akstri. Í Shanghai er ný útgáfa þessa hugmyndabíls til sýnis því að í stað bensínmótorsins er nú kominn efnarafall. Þannig búinn kemst Chevrolet Volt tæpa 500 kílómetra áður en fylla þarf á vetnisgeymana eða stinga í samband við rafmagnstengil. http://www.fib.is/myndir/Chevy-Volt-ofanfra.jpg

Efnarafallinn sem er í sýningarbílnum í Shanghai er af svonefndri fimmtu kynslóð. Hann er helmingi fyrirferðarminni en fjórðu kynslóðar efnarafalar en þó jafn öflugur. Að stærð er hann ámóta og lítil fjögurra strokka bílvél og kemst auðveldlega fyrir í vélarhúsi bílsins. En auk þess að vera fyrirferðarlítill er efnarafallinn sagður mun sparneytnari á vetnið en eldri gerðir voru sem aftur krefst fyrirferðarminni vetnisgeyma í bílnum.

Chevrolet Volt er vissulega enn á tilrauna- og rannsóknastigi og á talsvert langt í land með að fara í framleiðslu. Grind hans og yfirbygging er að stærstum hluta úr áli og koltrefjaefnum til að halda þyngdinni í skefjum. Sýningarbíllinn í Shanghai er þrátt fyrir efnarafal og rafgeyma og annan búnað ekki nema 1.588 kíló tilbúinn til aksturs. Hann er þannig 30% léttari en annar tilraunabíll GM sem kallast Sequel.

Rafmótorarnir sem knýja Volt áfram eru tveir. Þeir knýja sitt hvort afturhjólið og samanlagt afl þeirra er 150 hestöfl. Vél- og drifbúnaðurinn hefur vinnuheitið E-Flex og er að sögn talsmanna GM og eins og nafnið á að vísa til – sveigjanlegt. -Það góða við þetta kerfi er að auðvelt er að vera með mismunandi útfærslur á því eftir því hvað hæfir mismunandi markaðssvæðum best,- sagði Larry Burns þróunarstjóri GM þegar hann kynnti bílinn fyrir blaðamönnum í Shanghai um síðustu helgi.