Keppt í sparakstri

Hin árlega sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu fer fram í dag og verður fyrsti bíll ræstur af stað kl. 13.30. Sá sem það gerir er hinn þjóðkunni Ómar Ragnarsson sem einmitt er mikill áhugamaður um sparneytna bíla.  38 bílar, allir nýir, eru skráðir til keppni og er stærstur hlut þeirra með dísilvélar, eða 30. Átta bílar eru bensínbílar, það er að segja að bensín er megin orkugjafi þeirra.

Leiðin sem ekin verður er 143,5 km hringur sem hefst á bensínstöð Atlantsolíu við Húsgagnahöllina að Bíldshöfða. Ekið er er um Mosfellsdal og Mosfellsheiði, Grafning og Grímsnes, gegn um Selfoss, framhjá Eyrarbakka og um Þrengslin aftur til Reykjavíkur og endað á upphafsstað. Sjálfur aksturinn tekur 130 mínútur. Bílarnir verða ræstir af stað með tveggja mínútna millibili. Búast má við að úrslit liggi fyrir undir kvöld.