Keyrðu eins og kona

Sænski læknirinn og umferðaröryggisstjóri sænsku vegagerðarinnar, Claes Tingvall, fullyrðir að ef eingöngu konur hefðu verið undir stýri í sænsku umferðinni sl. fern jól og áramót hefðu dauðaslysin þá orðið um það bil 20 færri. Og ef allir ökumenn temdu sér meðal-ökulag kvenna, myndi dauðaslysum í umferðinni fækka um helming. -Keyrðu eins og kona! eru skilaboð Claes Tingvall til karlmanna. Þetta kemur fram í grein í Motor, félagsriti hins sænska systurfélags FÍB.

Tölfræðin talar sínu máli. Hún sýnir að þrátt fyrir það að karlmenn aki fremur en konur í stórum, vel búnum, öruggum, jafnvel dýrum bílum, þá eru dauðaslys algengari meðal karl-ökumanna en meðal kvenna. Það er hin napra staðreynd þegar búið er að reikna inn í tölfræðina atriði eins og hlutfall karl- og kvenökumanna í umferðinni miðað við ekna kílómetra o.s.frv. Niðurstaðan er hreinlega sú að umferðarhegðun kynjanna er ekki sú sama. Öryggið er ofar í forgangsröðinni hjá konum en hjá körlum. Karlökumenn eru að meðaltali helmingi líklegri til að láta lífið í umferðarslysi en konur.

Motor bað tölfræðinga öryggissstofnunar sænsku vegagerðarinnar að skoða umferðarslys í Svíþjóð um jól og áramót sl. fjögur árin þar sem ökumenn létust. Í þeim létust samtals 51 ökumaður; 13 konur og 38 karlar. Niðurstaða tölfræðinganna var sú að hefðu konur ekið sérhverjum bílanna hefðu látnir ökumenn líklega orðið um 25 prósent færri. Jafnframt hefðu látnir farþegar að sama skapi orðið færri. Samtals hefðu því um 20 mannslíf sparast í þessum slysum, hefðu ökumenn allir verið konur. –Bara ef allir karlökumenn tækju upp hjá sér að aka bíl eins og konur gera venjulega, þá myndi dauðaslysum í umferðinni fækka um helming, segir Claes Tingvall.

Hversvegna?
„Vegna þess að konur keyra miklu sjaldnar undir áhrifum en karlar, þær keyra miklu sjaldnar hraðar en aðstæður bjóða upp á, þær temja sér síður árásargjarnt ökulag, þær spenna öryggisbeltin mun oftar. Umferðin er í eðli sínu félagskerfi þar sem þátttakendur verða að temja sér sjálfsaga og hafa stjórn á viðbrögðum sínum og skapsmunum. Konur eru yfirleitt betri í því en karlar. En vissulega fyrirfinnast konur sem eru æða áfram og sömuleiðis eru rólyndir og hafa á sér hemil. En vitleysishegðun í umferðinni er algengari meðal karla en kvenna.“ Claes Tingvall segir að þegar hlutfall kvenna í umferðinni hækki, verði umferðin almennt öruggari, og á sama hátt óöruggari þegar hlutfall þeirra lækkar. Því hærra sem hlutfall karla í umferðinni er, þeim mun fleiri alvarleg slys verða. „Í þeim heimshlutum þar sem umferðarslys eru mest og verst eru karlar allsráðandi í umferðinni. Dæmi um þetta eru Norður-Írak og Arababalöndin.