Kia Cee´d er fæddur
11.12.2006
Kia Cee´d.
Hin nýja bílaverksmiðja Kia í Slóvakíu hóf framleiðslu í síðustu viku á nýjum bíl þeim flokki bíla sem kenndur er við VW Golf. Kia sýndi frumgerð þessa nýja bíl í Golf flokknum m.a. á bílasýningunni í París í haust. Nafnið er hálf sérkennilegt; Cee´d, en sjálfur bíllinn er það hins vegar ekki.
Notagildið er í fyrirrúmi, útlitið er hefðbundið og fyrsta framleiðslulínan sem nú er verið að byggja í Slóvakíu er fimm dyra. Í ágúst nk. er svo von á hlaðbak sem nefnist Sporty Wagon og sportgerð eða coupé sem kallast mun Sporty Hatch. Búast má við fyrstu Kia Cee´d til Íslands á fyrrihluta nýs árs eða um svipað leyti og á hinum Norðurlöndunum.
Kia hefur mjög verið að sækja í sig veðrið á Evrópskum bílamarkaði undanfarið og geta fáar aðrar tegundir státað af jafn mikilli aukningu upp á síðkastið. Hin nýja bílaverksmiðja Kia í Slóvakíu er mjög nýtískuleg og fullkomin og svo vissir eru stjórnendur Kia í Evrópu um vöruvöndun og –gæði framleiðslunnar að kaupendum Kia Cee´d verður boðið upp á sjö ára eða 150 þúsund kílómetra ábyrgð gagnvart hugsanlegum bilunum í stað lögbundinnar tveggja ára ábyrgðar. Ábyrgðin er raunar tvískipt þannig að fimm ára ábyrgð verður á bílnum sem heild en á vél, gírkassa og drifi er tveggja ára viðbótarábyrgð. Þetta er lengsti ábyrgðartími á bíl sem dæmi eru um hingað til. En ábyrgðin er háð því að bílinn sé þjónustaður á viðurkenndu Kia-verkstæði.