Kia framleiðandi ársins hjá Top Gear

Kia var valinn Framleiðandi ársins 2022 á TopGear.com verðlaunahátíðinni og lýkur bílaframleiðandinn þannig árinu á sannkölluðum hápunkti. Þetta er annað árið í röð sem Kia fer með sigur af hólmi á TopGear.com verðlaununum, en í fyrra var EV6 hlutskarpastur í sínum flokki.

Kia hefur á þessu ári komið m.a. með á markað fimmtu kynslóð Sportage og nýjan Niro, tvær söluhæstu gerðir Kia í  Evrópu. Báðar gerðirnar buðu upp á miklar betrumbætur á ýmsum sviðum, þar á meðal hvað varðar hönnun ytra byrðis og innanrýmis, tækniframfarir og sjálfbærnivottanir.

„Kia hefur verið á ótrúlegri siglingu upp á síðkastið. Þrátt fyrir fordæmalausan mótvind virðist ekkert lát vera á uppsveiflunni. Þvert á móti virðist hugrekkið færast í aukana. Nýjasti Sportage er framúrskarandi fjölskyldubíll sem slær helstu keppinautum sínum ref fyrir rass. Nýi Niro er glæsilegur í útliti og býðst í bæði hybrid- og rafmagnsútfærslum, og Kia virðist ganga vel í umskiptunum yfir í algjörlega rafknúna bíla. EV6 GT býður upp á 577 ha útfærslu með ótrúlegri skriðstillingu," segir Jack Rix, ritstjóri BBC Top Gear Magazine.

Áætlun fyrirtækisins lýsir markmiðum þess um sjálfbærni, þar á meðal um 14 algjörlega rafknúnar gerðir árið 2027. Næsta gerðin verður Kia EV9, sem kemur á markað í Evrópu árið 2023