Kia frumsýndi nýjan XCeed

Kia frumsýndi á dögunum nýjan bíl sem ber heitið Kia XCeed. Bíllinn er crossover bíll, sem er flokkur á milli fólksbíls og jepplings, með coupe lagi og afar sportlegur í útliti. XCeed hefur verið beðið með eftirvæntingu frá því Kia tilkynnti að hann væri á leiðinni. Von er á bílnum á markað seinni part haustsins.

XCeed er rúmgóður að innan og hærri en venjulegur fólksbíll sem þýðir að aðgengi er mjög gott fyrir ökumann og farþega sem sitja hátt og sjá vel út. Þá er bíllinn með 426 lítra farangursrými með aftursætin uppi sem er sambærilegt og bílar í jepplingaflokki. Bíllinn er stærri og hærri en Kia Ceed fólksbíllinn en aðeins minni en Kia Sportage jepplingurinn. XCeed er með 18 sentimetra hæð undir lægsta punkt.

Hönnunin á bílnum er stílhrein og sportleg og mikið er lagt í innanrýmið sem er vandað og vel búið í efnisvali og þægindum. XCeed er einn tæknivæddasti bíllinn í sínum flokki. Bíllinn verður í boði með 12,3 tommu Supervision skjá og er þetta fyrsti bíllinn frá Kia sem verður kemur með þessum hátæknivædda skjá. Í boði er einnig 10,25 tommu breiðskjár og digital mælar. Þá er XCeed í boði með tæknivæddu UVO kerfi sem bætir enn frekar tengimöguleika varðandi afþreyingu og akstursupplýsingar og gefur ökumanni enn betra aðgegni að umheiminum og því sem er að gerast í kringum hann í akstrinum.

Kia hefur lagt mikið í að gera XCeed sem bestan í aksturseiginleikum og þæginda- og öryggisstuðullinn er einnig mjög hár. Þannig er bíllinn búinn öllum nýjasta öryggis- og aðstoðarbúnaði frá suður-kóreska bílaframleiðandanum. Bíllinn er hannaður í hönnunarmiðstöð Kia í Frankfurt í Þýskalandi undir handleiðslu Gregory Guillaume, aðstoðarforstjóra hönnunardeildar Kia Motors í Evrópu.