Kia Niro hreppir Gullna stýrið

Nýi Kia Niro rafbíllinn hlaut hið virta Gullna stýri, sem almennt er talið mikilvægasta viðurkenning sem bílum getur hlotnast í Þýskalandi. Kia Niro, sem hlaut mikið lof þegar hann var kynntur til sögunnar fyrr á þessu ári, fékk Gullna stýrið 2022 í flokki lítilla SUV-bíla, þar sem samkeppnin er geysihörð. Tengiltvinnbíllinn Kia Sportage hafnaði í öðru sæti.

Jason Jeong, forstjóri Kia Europe gat ekki leynt ánægju sinni og sagði að Kia myndi halda áfram að auka úrval rafbíla sem sameina sparneytni, mikið akstursdrægi og stíl. Fjölbreytt úrval rafbíla frá okkar kemur vel í ljós í Gullna stýrinu í ár, þar sem við sýnum enn og aftur að við erum í sérflokki þegar kemur að rafvæðingu.

,,Við erum mjög stolt af því að dómnefndin skuli hafa valið þrjár af nýjustu gerðum Kia til úrslita í keppninni í ár, enda sýnir það hversu staðráðin við erum í að leggja okkar af mörkum til sjálfbærra samgangna,“ sagði Jeong.

Gullna stýrið sem Niro hlaut í ár er það þriðja á síðustu fjórum árum sem fallið hefur Kia í skaut. Kia Sorento hlaut heiðurinn árið 2020 þegar hann varð hlutskarpastur í flokki stórra SUV-bíla og Kia XCeed vann árið 2019 í flokki bíla undir 35.000 evrum.

Kia ætlar að halda áfram að auka framboð rafbíla og er markmiðið að 14 gerðir Kia-rafbíla verði komnar á markað árið 2027, þar á meðal ný lína lítilla og meðalstórra rafbíla frá og með 2025. Áætlun fyrirtækisins fyrir árið 2030 er að selja 4 milljónir bíla árlega, þar af 1,2 milljónir rafbíla.