Kia Sportage hefur selst í fimm milljónum eintaka

Framleiðendur Kia bílanna geta glaðst yfir mjög góðum viðtökum sem nýjasta kynslóð sportjeppans  Kia Sportage hefur fengið. Bíllinn kom á markað fyrir einu og hálfu ári og hafa nú þegar selst á aðra milljóna bíla. Þetta eru mun betri viðtökur en framleiðendur gerðu sér vonir um.

Á dögunum urðu tímamót í sögu Kia Sportage en þá var því fagnað að fimm milljónir eintaka af Kia Sportage hafa selst um heim allan.  Bíllinn kom fyrst á markað 1993 og hefur notið vinsælda hér á landi og selst vel.

Kia Sportage er eitt af flaggskipum fyrirtækisins og er ekkert lát á vinsældum bílsins. Framleiðendur bílsins eru mjög bjartsýnir á framhaldið enda hefur bílasala almennt í Evrópu verið góð það sem af er árinu.

Kia Sportage sem kemur inn á Evrópumarkað er framleiddur í Slóvakíu í verksmiðju sem þar var byggð fyrir ellefu árum síðan.