Kílómetragjald er skynsamlegasta leiðin

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, segir kílómetragjald sanngjörnustu og skynsamlegustu leiðina til að innheimta gjald af bílum og umferð til lengdar. Hann bendir á að eigendum farartækja fjölgi sem ekki greiða fyrir notkun vegakerfisins með sama hætti og á við um bensín- og dísilbíla. Þetta kemur fram í innsendri grein Runólfs Ólfssonar í Fréttablaðinu í dag sem lesa má í heild sinni hér fyrir neðan.

FÍB telur að kílómetragjald sé skynsamlegasta og sanngjarnasta gjaldtökuleiðin

Þeim ökutækjum fjölgar sem greiða ekki fyrir notkun vegakerfisins með sama hætti og bensín- og dísilbílar. Stefnan er að fjölga hreinorkubílum vegna jákvæðra áhrifa á umhverfið. Kaupendur rafbíla njóta skattaívilnana. En ljóst er að hluti notenda getur ekki til lengdar staðið undir uppbyggingu og viðhaldi vega meðan aðrir sleppa. FÍB telur að kílómetragjald sé skynsamlegasta og sanngjarnasta gjaldtökuleiðin af bílum og umferð til framtíðar.

Umræða um þessa gjaldtökuaðferð getur fljótt orðið flókin og skapað misskilning sem heftir frekari úrvinnslu. Því þarf að hefja undirbúning strax með fjölbreyttu samráði við bíleigendur og hagsmunaaðila. Æskilegt væri að setja áformaða gjaldtöku upp í reiknivél þannig að hver og einn bíleigandi geti áttað sig á kostnaðinum. Almenningur þarf að geta mátað mismunandi akstursnotkun og ökutæki við framkomnar tillögur.

 Gjaldtakan á að vera hvetjandi til kaupa og notkunar á bílum sem hafa minni umhverfisáhrif

 Kílómetragjaldið á að vera breytilegt eftir orkugjafa, þyngd ökutækis og notkun þess. Það þarf að vera gegnsætt að um sé að ræða skynsamlega, sanngjarna og hagkvæma leið til standa undir kostnaði við vegakerfið. Gjaldtakan á að vera hvetjandi til kaupa og notkunar á bílum sem hafa minni umhverfisáhrif. Veitufyrirtæki nota sams konar innheimtuaðferð, það er að mæla notkun. Akstursnotkunina, kílómetragjaldið, er hægt að áætla í upphafi út frá meðalakstri ökutækja og síðan endurskoða með tilliti til raunverulegrar akstursnotkunar. Þetta þekkja neytendur í tengslum við kaup á raforku og heitu vatni.

Til lengri tíma væri hægt að fella aðra skatta af bílum og umferð undir kílómetragjaldið

 Álestur kílómetrastöðu getur farið fram með fjölbreyttum hætti; við árlega skoðun hjá skoðunarstöð, hjá viðurkenndum verkstæðum og þjónustuaðilum, við eigendaskipti, með skyndiskoðunum, með eigin álestri og jafnvel beint frá bílnum með upplýstu samþykki. Til lengri tíma væri hægt að fella aðra skatta af bílum og umferð undir kílómetragjaldið, svo sem bifreiðagjaldið og vörugjöld við innflutning.