Kílómetragjald verður jafnhátt fyrir alla einkabíla
Eigendur sparneytnari bíla greiða hærri gjöld en nú, nái frumvarp um kílómetragjald fram að ganga. Stefnt er að því að afgreiða það á vorþingi. Ekki er talið samt ólíklegt að gildistökunni verði frestað til næstu áramóta.
Samkvæmt frumvarpi um kílómetragjald að því er fram kemur á ruv.is verður gjaldið jafnhátt fyrir alla einkabíla, eða 6,7 krónur á kílómetra. Á móti verður skattur á eldsneyti lækkaður verulega.
Bensínlítrinn ætti að lækka um um það bil 90 krónur í verði og það sama gildir um dísilolíu. Þetta getur aukið kostnað eigenda sparneytnari bíla.
Eigandi jeppa sem eyðir tíu lítrum á hundraðið og ekur 14.000 kílómetra á ári sparar sér um 26.000 krónur á ári með skattkerfisbreytingunum. Eigandi smábíls sem eyðir sex lítrum á hundraðið þarf að greiða um 16.000 krónum meira á ári fyrir sama akstur.
Frumvarpið er komið til annarrar umræðu á þingi. Stefnt er að því að afgreiða það í vor. Þingmenn þurfa að hafa hraðar hendur ef það á að taka gildi á réttum tíma, 1. júlí. Ekki er ólíklegt að gildistökunni verði frestað til næstu áramóta.