Kína-Buick á Bandaríkjamarkað

Kína-Buick á Bandaríkjamarkað
Kína-Buick á Bandaríkjamarkað

Næsta sumar kemur fyrsti kínverski bíllinn á almennan bílamarkað í Bandaríkjunum. Bíllinn sem ber hið bandaríska nafn Buick Envision, er hannaður fyrir kínverskan bílamarkað og framleiddur í bílaverksmiðju GM í Yantai í Kína. Frá þessu er greint í frétt frá GM sem send var fjölmiðlum sl. föstudag.

Buick Envision er meðalstór fernra dyra, fimm manna jepplingur (kallast smájeppi í USA). Samkvæmt frétt Automotive News er þetta fyrsti innflutti jepplingurinn af tegundinni Buick sem væntanlegir eru á Bandaríkjamarkað á næstu árum. Minnstur er Encore en stærstur er Enclave. Flestir verða þessir og aðrir nýir „Bjúkkar“ framleiddir utan Bandaríkjanna – í Kína eða Evrópu aðallega.

Jepplingar er sá bílaflokkur sem vinsælastur er í Bandaríkjunum þessi árin. Um 40% nýrra bíla þar í landi eru jepplingar. Envision er greinilega nokkuð vinsæll í Kína. Í fyrra seldust þar 117.200 eintök af honum þar en á þessu ári seldust 127.085 bílar á tímabilinu jan.-nóv.