Kínabíll inn á bandarískan bílamarkað

http://www.fib.is/myndir/Geely1.jpg
Kínverska bílaframleiðslufyrirtækið Geely – hið eina kínverska sem er í einkaeigu – vinnur nú að því að ná fótfestu á bandarískum bílamarkaði með í það minnsta eina gerð. Áætlað er að salan hefjist haustið 2008. Verðið verður mjög hóflegt eða í kring um 700 þúsund ísl. krónur samkvæmt frétt Auto Motor & Sport.

Geely – hið einkarekna bílaframleiðslufyrirtæki í Kína sýndi nokkrar gerðir bíla sinna á bílasýningunni í Detroit í janúar sl. Eftir sýninguna hafa yfir 200 bílasölufyrirtæki í Bandaríkjunum sett sig í sambandi við markaðsfyrirtæki Geely í Bandaríkjunum og óskað eftir því að gerast söluaðilar fyrir þessa ódýru bíla.
Framkvæmdastjóri Geely í Bandaríkjunum heitir John Harmer. Hann segir að Bandaríkjamenn almennt efist um gæði kínversks varnings og hans fyrsta og stærsta verkefni sé að breyta því almenna viðhorfi hvað varðar Geely bíla í það minnsta. En þar að auki verði bílarnir að uppfylla kröfur um öryggi og mengunarvarnir.
En þær viðtökur og sú athygli sem Geely vakti á Detroitsýningunni segir Harman að hafi styrkt hann í þeirri fyrirætlan að hefja sölu á 2009 árgerð af Geely bílum haustið 2008. Markhópur Geely er það fólk sem kaupir ódýra bíla – sami hópur og á sínum tíma keypti japanska og síðar kóreska bíla þegar þeir voru að hasla sér völl í Bandaríkjunum og kostuðu minna en aðrir bílar.

Fyrsta gerð Geely bíla á Bandaríkjamarkaði mun eiga að kosta í kring um 10 þúsund dollara sem á gengi dagsins í dag er um 700 þúsund krónur. Í verðinu verða innifalin atriði eins og loftkæling, rafdrifnar rúður og útvarp með geislaspilara. Þá mun bíllinn einnig verða að uppfylla bandarískar öryggis- og mengunarkröfur. Áætlanir gera ráð fyrir að fyrsta árið seljist 25 þúsund bílar en aukist á fimm árum í 100 þúsund bíla árlega sölu.

Nú vinnur Geely undir  stjórn John Harmer að því að byggja upp innviði fyrirtækisins og sölu- og dreifikerfi um Bandaríkin. Ekki er enn ljóst hvar aðalstöðvar fyrirtækisins verða né helstu innflutningshafnir og birgðastöðvar, en enn sem komið er starfar John Harmer að málum í heimaborg sinni, Salt Lake City. Líklegt þykir að höfuðstöðvum Geely verði ekki valinn staður þar heldur þar sem bílaframleiðsla og bílaviðskipti standa á gömlum merg – t.d. í Memphis, Detroit eða Los Angeles.