Kínabíll kemur til Evrópu

Geely bílaframleiðslufyrirtækið í Kína sem jafnframt á Volvo í Svíþjóð með húð og hári, er nú að hefja kynningu á Geely Emgrand EC7 í Bretlandi. Bíllinn verður beinn keppinautur Skoda Octavia en ódýrari - kostar rétt undir tveimur milljónum ísl. króna meðan Skódinn kostar rétt undir þremur.

Geely Emgrand EC7 er nýbúinn að fara í gegn um árekstrarpróf EuroNCAP og hlaut fjórar stjörnur sem telst vera  fyllilega viðunandi og rúmlega það. Árangur bílsins er miklu betri en nokkurs annars kínversks bíls sem árekstursprófaður hefur verið í Evrópu til þessa. Hann er sagður koma á Bretlandsmarkað eftir mitt næsta ár

Emgrand EC7 verður í tveimur meginútgáfum: Annarsvegar sem stallbakur (fólksbíll með skotti) en hinsvegar sem hlaðbakur. Tvær bensínvélar verða í boði: Sú minni er 1,5 l en sú stærri 1,8 lítra að rúmtaki. Staðalbúnaður er sagður verða ríkulegur og fimm ára eða 160 þúsund km verksmiðjuábyrgð gagnvart bilunum er lofað.

Ekkert er sagt í frétt frá Geely um markaðssetningu á Norðurlöndunum eða í öðrum Evrópulöndum. Telja má þó víst að svo verði fljótlega eftir að salan hefst í Bretlandi.