Kínabílnum Roewe 560 reynsluekið í Austurríki

Lengi hefur verið búist við innrás kínverskra bíla á evrópskan bílamarkað svipaða japönsku innrásinni um og eftir 1970. Af henni hefur ekki orðið ennþá að heitið geti, en það gæti breyst senn.

Kínverjar eru í miklum tengslum við vestrænan bílaiðnað með margskonar hætti eins og eignatengslum og tæknisamvinnu. Volvo er t.d. alfarið í kínverskri eigu, og kínverskt fyrirtæki á Saab í Svíþjóð og annað á hið breska MG-Rover og framleiðir bíla í Kína undir nafninu Roewe. Þetta síðastnefnda ; Shanghai Automotive er stærsta bílaframleiðslufyrirtæki í Kína. Það gæti nú verið að undirbúa ,,innrás” í Evrópu því að náðst hafa myndir af frumgerð nýs bíls; Roewe 560 sem þessa dagana er verið að reynsluaka í Austurrísku Ölpunum. Sjá má myndir af þessum bíl, m.a. á þessum rússneska vef.

Bíllinn er þannig líklega ætlaður Evrópumarkaði. Hann er byggður á hinum breska Rover 75 sem eitt sinn var og hét. Forsagan er sú að þegar MG-Rover í Bretlandi fór endanlega á hausinn keypti Shanghai Automotive þrotabúið og meðfylgjandi framleiðslutæki, tæknibúnað og -þekkingu og fékk slatta af verkfræðingum með í kaupunum. Rover-nafnið fylgdi hins vegar ekki með en það gerði MG hinsvegar og hafa MG bílar, aðallega sportbílar, síðan verið framleiddir í Kína. Fáeinir voru sendir hálfkaraðir til Bretlands og kláraðir þar. En Rover-nafnið féll í hlut BMW og þá tóku Kínverjarnir það til bragðs að búa til nýtt nafn sem líktist Rover – semsé Roewe.

Þar sem reynsluakstursbíllinn í Austurríki er með vinstri handar stýri telja evrópskir bílablaðamenn það vera til vitnis um að bíllinn sé ætlaður kaupendum á meginlandi Evrópu. Einhverjir þeirra hafa komist að því að hann verði með 140-170 ha. bensínvélum og verði líklega markaðssettur 2017.