Kínarafbílar til Íslands

Sunnlenska fréttablaðið greinir frá því að íslenskt fyrirtæki; GT Group á Selfossi og Foton Motors í Kína hafi á sumardaginn fyrsta undirritað samning í Bejing um sölu á rafbílum til Íslands og jafnvel til ríkja innan Evrópusambandsins. 

Foton Motors er stór bifreiðaframleiðandi í Kína. Höfuðstöðvarnar eru í höfuðborginni Bejing. Fyrirtækið framleiðir 7-800 þúsund bíla á ári, allt frá smábílum upp í vörubíla. Framkvæmdastjóri GT Group ehf, Benedikt G. Guðmundsson segir við Sunnlenska fréttablaðið að ætlunin sé að flytja inn bæði fjölskyldubíla og minni sendibíla og vonir standi til að samningurinn verði til þess að rafbílar verði raunverulegur valkostur hér á landi.

GT Group er móðurfélag Guðmundar Tyrfingssonar ehf á Selfossi sem rekur fjölda hópferðabíla og bílasmiðju m.a. Það er sömuleiðis móðurfélag Yutong Eurobus ehf. Það félag er umboðsaðili fyrir Yutong fólksflutningabíla en Yutong er einn stærsti framleiðandi fólksflutningabíla í heiminum, ef ekki sá stærsti. Hið íslenska Yutong ehf hefur að sögn Sunnlenska fréttablaðsins flutt inn á annan tug stórra fólksflutningabíla til Íslands og fyrstu bílarnir sem félagið hefur selt til Noreg séu að leggja af stað þangað.