Kínverjar eignast 22% í Valmet í Finnlandi

Úr verksmiðju Valmet í Finnlandi. Hér er verið að byggja Mercedes Benz GLC jeppa.
Úr verksmiðju Valmet í Finnlandi. Hér er verið að byggja Mercedes Benz GLC jeppa.

Kínverski rafhlöðuframleiðandinn CATL (Contemporary Amperex Technology Limited) hefur keypt 22 prósent hlut í finnsku bila- og traktoraverksmiðjunni Valmet. Tilgangurinn með kaupunum er að ná traustri fótfestu og forystu á Evrópskum rafbílamarkaði í framleiðslu og sölu bæði rafbíla, rafhlöðupakka og drifbúnaðar fyrir rafbíla.

    Markaðsspámenn hafa þóst geta greint að tilgangurinn með kaupunum sé ekki síst sá að láta ekki hið bandaríska Tesla vera eitt um hituna á þessum ört vaxandi markaði en Tesla hefur einmitt látið í ljós vilja til að reisa mjög stóra rafhlöðuverksmiðju í Finnlandi og herja þaðan inn á Evrópska markaðinn. Þegar kaup Kínverjanna voru kynnt sl. mánudag í Finnlandi var þetta í raun staðfest af talsmanni CATL sem sagði: ,,Sameiginlegt markmið okkar (CATL og Valmet) er að ná traustri fótfestu á evrópskum rafbíla- og rafbílatæknimarkaði.“

    Valmet er velþekkt bílaframleiðslufyrirtæki þótt aldrei hafi þar verið framleiddir bílar undir eigin nafni heldur einungis traktorar. Þeir bílar sem Valmet hefur framleitt um skemmri eða lengri tímabil eru nokkrir, m.a. Saab, Opel, Fisker og Porsche og Mercedes Benz - nú síðast GLC jeppinn frá Mercedes Benz. Bílar sem framleiddir hafa verið hjá Valmet hafa þótt einstaklega vandaðir og vel byggðir.

    CATL er mjög stór framleiðandi líþíumrafhlaða fyrir rafbíla og tvinnbíla. Framleiðsla fyrirtækisins á þeim þrefaldaðist á síðasta ári og eykst enn hröðum skrefum. Áætlað er að árið 2020 verði ársframleiðslan komin upp í 50 gígaWatttíma sem er sexföld afköst frá því sem nú er og er verulega meira en afkastageta Tesla-rafhlöðuverksmiðjunnar Gigafactory í Nevadaríki verður þegar hún kemst í gagnið.