Kínverjar hafa keypt Saab

Kínversku bílarfyrirtækin Pang Da og Youngman hafa keypt Saab í Svíþjóð með húð og hári af Swedish Automobile N.V. og hyggjast endurreisa það. Til að byrja með setja Kínverjarnir tvo milljarða sænskra króna í það að koma framleiðslunni í gang á ný. Síðan ætla þeir að verja 5,5 milljörðum SKR til að þróa nýja kynslóð Saab 9-3 og fleiri nýjar gerðir.

Sænska sjónvarpið greindi frá endurreisnaráætlunum Kínverjanna í fréttaskýringaþættinum Rapport í gærkvöldi og sagði að þær yrðu lagðar fyrir héraðsdóm Vänersborgarléns í dag. Samþykki rétturinn áætlanirnar hefst endurreisnin væntanlega fljótlega. En hvort allar áætlanir nýrra eigenda ná fram að ganga er þó háð samþykki margra málsaðila eins og sænsku og kínversku ríkisstjórnanna og General Motors sem átti Saab um langt árabil. GM þarf að samþykkja tæknilegar áætlanir þar sem veigamiklir þættir í Saab bílum byggjast á tækni frá GM.