Kínverjar vilja líka betri laun

The image “http://www.fib.is/myndir/Geelysportbill.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Kínverskur sportbíll af gerðinni Geely.
Kannski er það smá huggun fyrir bílaframleiðendur í Evrópu og Bandaríkjunum, sem óttast hugsanleg heimsyfirráð Kínverja í bílaiðnaðinum meir en flest annað, að kínverskir bílaiðnaðarverkamenn eru farnir að krefjast betri launa.
Vinnuafl í Kína hefur verið og er enn hræódýrt, sem auðvitað er veigamikil ástæða þess að vestræn fyrirtæki hafa opnað verksmiðjur þar í stórum stíl undangengin ár. En kínverskir launþegar sætta sig ekki lengur við hvað sem er og eru farnir að sækja á um bætt kjör.
Skýrslur frá bæði Bejing og Shanghai sýna að launakostnaður í Kína fer síhækkandi og hefur stigið á einu ári um 8-11 prósent. Hagræðingaraðgerðir í iðnaðinum og aukin sjálfvirkni getur auðvitað haldið framleiðslukostnaðinum í skefjum, en það er bara ekki nóg eitt og sér vegna þess að heimsmarkaðsverð á hráefni og orku fer hækkandi. Bæði olíu- og stálverð hefur hækkað mjög undanfarin tvö ár, ekki síst vegna stórvaxandi eftirspurnar frá Kína og öðrum mjög fjölmennum löndum í Asíu – nema hvað?
Hækkandi framleiðslukostnaður í Kína og öðrum Asíulöndum styrkir auðvitað samkeppnisstöðu bílaiðnaðarins í Evrópu og Bandaríkjunum og eflir vonir manna þar um að þetta seinki fyrirsjáanlegri stórinnrás Kínverja inn á vestrænan bílamarkaði.  En hversu langt andrúm fá menn til að ná vopnum sínum? Það er spurningin.