Kínversk Rolls Royce eftirlíking

http://www.fib.is/myndir/LollsLoyce-litil.jpg
Eftirlíking Geely af Rolls Royce Phantom.


Kínversku bílaframleiðendurnir sem flestir eru í ríkiseigu, hafa verið iðnir við að afrita útlit evrópskra bíla eins og BMW, Mercedes og Smart. Og nú virðist komin röðin að konungi bílanna; Rolls Royce. Á árlegri bílasýningu í Shanghai í Kína sem hófst í morgun, er til sýnis kínverk eftirlíking af Rolls Royce. Bíllinn er þar sagður vera frumgerð og ekki kominn í fjöldaframleiðslu. Þýska bílatímaritið Auto Bild hefur tekið saman myndröð af kínverskum eftirlíkingum evrópskra bíla sem er að finna hér.

Forstjórar bílafyrirtækja sem framleiða og selja ódýra bíla eiga oft við þann lúxusvanda að stríða að þeir eiga ekki kost á lúxusbíl frá eigin verksmiðjum. Þetta á vissulega við um forstjóra Geely bílaverksmiðjunnar í Kína en hann hefur látið bílasmiði sína byggja sér nákvæma Rolls Royce eftirlíkingu. Eftirlíkingin er nákvæmlega jafn löng, breið og há og Rolls Royce Phantom og svo líkur er Kínarollsinn að erfitt er að sjá annað en að hún sé í raun Rolls Royce og á það við um bæði ytra útlit og innréttingu – með einni undantekningu þó. Í Kínaeftirlíkingunni er aðeins eitt aftursæti, en það er þvílíkt voldugt að ætla mætti að það sé ætlað keisarannum í Kína einum manna.

Prófessor við háskólann í Jena í Þýskalandi sem sérfróður er um vörumerki og sem séð hefur kínverska „Lollsinn“ segir að ytra útlit hans sé svo líkt Rolls Royce Phantom að auðvelt verði fyrir BMW, sem er eigandi Rolls Royce merkisins, að stöðva sölu á eftirlíkingunni í Evrópu þótt öðru máli kunni að gegna um Kína.