Kínverski bílaframleiðandinn Geely eignast stærsta hlutinn í Daimler

Gríðarlegur uppgangur er hjá kínverska bílaframleiðandanum Geely um þessar mundir. Geely á nánast allt hlutaféð í Volvo en þar á bæ eru menn hvergi hættir. Nú hafa Kínverjarnir eignast stærsta hlutinn í Daimler sem framleiðir eins og kunnugt er Marcedes Benz.

Með meirihluta eignaraðild sinni í Daimler ætla Kínverjarnir að leggja aðal áherslu á framleiðslu rafbíla. Sitt sýnist hverjum um þessar breytingar í Þýskalandi en aftur á móti hafa þýsk yfirvöld hafa lagt blessun sína yfir þennan gjörning.

Á dögunum bárust fréttir af því að Daimler hefði fjárfest sem nemur um tveimur milljörðum bandaríkjadala í kínverska bílaframleiðandanum BAIC. Með fjárfestingunni er horft til uppbyggingar í rafbílaframleiðslu.

Um átta ár eru síðan að Geely eignaðist að fullu Volvo sem skilað hefur jafnt og þétt góðum ávinningi. Kínverjarnir létu ekki þar við sitja og eignuðust 2013  að fullu breska fyrirtækið Manganese Bronze sem byggir Lundúnaleigubílana. Geely var stofnað árið 1986 og í dag vinna um 80 þúsund starfsmenn hjá fyrirtækinu. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa áætlanir um að stækka enn frekar sinn hlut á bílamarkaðnum á þessu ári.