Kínverskir bílar til Danmerkur 2009

                                                             

Kínverski bílaframleiðandinn BYD hefur undirritað samning við danska fyrirtækið Nic. Christiansen Gruppen í Kolding um sölu á BYD í Danmörku. Nic. Christiansen Gruppen er móðurfélag sterkra bílgreinafyrirtækja m.a. danska Hyundai umboðsins, Land Rover umboðsins og Lada umboðsins.  Áætlað er að hefja sölu á BYD bílum í Danmörku vorið 2009. 

Samningurinn markar ákveðin tímamót því hann er sá fyrsti um sölu og markaðssetningu á kínverskum bílum í Danmörku.  Forvígismenn Nic. Christianden Gruppen fagna því í viðtali við Motor-magasinet að hafa náð samningum um sölu á fyrsta kínverska bílnum á danska markaðnum. Þeir telja að kínverskir bílaframleiðendur verði mjög sterkir í Evrópu innan fárra ára og því mikilvægt að ná viðskiptasamningi við BYD til að geta tekið þátt í þeirri þróun.  

Nýjar tegundir af BYD bílum verða sýndar í fyrsta skipti utan Kína núna í vikunni í Moskvu og síðan næsta vor á Genfar bílasýningunni.  Meðal tegunda eru BYD F3R sem er millistærðarbíll, F1 sem er í smábílaflokki, F6 stærri fjölskyldubíll og sportlegur blæjubíll.

Þessar fréttir geta verið spennandi fyrir íslenska markaðinn því löngum hafa verið sterk tengsl á milli danskra og íslenskra bílgreinafyrirtækja.  Líklegt verður að telja að margir íslenskir aðilar hafi áhuga á að  selja kínverska bíla á næstu árum.