Klaki í húsagötum leikur ökumenn grátt

Ökumenn hafa ekki farið varhlutan að slæmri færð sem hefur verið í húsagötum á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu. Mikil ofankoma hefur verið á höfuðborgarsvæðinu  í janúar og febrúar þó hægt hafi á henni á síðustu dögum.

Mikill klaki hefur myndast sem gerir ökumönnum erfitt að komast leiðar sinnar. Helstu ökuleiðir eru nú greiðfærar en ástandið í húsagötum er víða slæmt.  Mokstur í húsagötum stendur yfir en miðar seint og illa. Snjóruðningstæki á vegum borgarinnar hafa vart undan að brjóta klakann og ryðja götur. Reykjavíkurborg áætlar að kostnaður við snjómokstur í febrúar hafi verið nálægt 300 milljónum króna.

Borgin hefur komið þeim ábendingum að framfæri til fólks að sýna þessu smá biðlund. Snjómoksturstæki eru störfum en hafa vart undan líkt og síðustu vikurnar. Dæmi eru um í efri byggðum hafi íbúar við húsagötur gripið til sinna ráða. Rutt og brotið klaka en oft á tíðum ekki haft erindi sem erfiði eins og gefur að skilja.

 Íbúar í húsagötum hafa látið í ljós óánægju hversu seint og illa gengur að koma götunum í viðeigandi ástand. Þá hafa bílar orðið fyrir tjóni vegna ástandsins og þá alveg sérstaklega í húsagötum. Verði vegfarandi fyrir tjóni á ökutæki er nauðsynlegt að fara á heimasíðu Vegagerðarinnar og fylla þar út tjónstilkynningu með rafrænum hætti: https://www.vegagerdin.is/thjonusta/tilkynning-um-tjon/.

Eins og tíðarfarið hefur verið síðustu daga eykst hættan á holumyndunum. Þegar þíða kemur í kjölfar frosts og kulda eða þegar miklir umhleypingar eru eykst hættan á því að holur myndist í bundnu slitlagi, malbiki og klæðingu.  Holur hafa nú þegar verið að koma fram á götum  höfuðborgarsvæðinu á síðustu dögum.

Þá er þeim tilmælum beint til eiganda rafbíla og bíla almennt að fara varlega í aðstæðum eins og nú er á götum höfuðborgarsvæðisins og víða um land.