Koenigsegg kaupir Saab



Sænskir fjölmiðlar fagna mjög fregnum um að sænski ofurbílaframleiðandinn Koenigsegg fari fyrir fjárfestahópi sem nú sé að eignast Saab. Samkvæmt fréttum af málinu hefur Christian von Koenigsegg undirbúið málið lengi og vel og kaupin séu svo gott sem um garð gengin. Þegar þetta er ritað hefur þó engin opinber tilkynning verið gefin út hvorki af hálfu Koenigsegg né af hálfu Saab.

Dagblaðið Dagens Industri greinir frá því nú í morgun að fjárfestahópur Koenigsegg sé mjög öflugur og það svo mjög, að líklega þurfi sænska ríkisstjórnin ekki einu sinni að ábyrgjast lán til Saab frá Evrópska fjárfestingabankanum til að af kaupunum geti orðið. Hópurinn er sagður koma úr ýmsum áttum. Innan hans sé fólk frá Svíþjóð, Noregi og Bandaríkjunum.

Christian von Koenigsegg frumkvöðull samnefndra ofursportbíla er ekki gamall maður, fæddur 1972. Hann var aðeins 22 ára gamall þegar hann hleypti bílaframleiðslu sinni af stokkunum á Skáni í Suður Svíþjóð. Koenigsegg sportbílarnir eru þeir hraðskreiðustu sem byggðir eru í heiminum um þessar mundir. Þeir þykja afar vel og vandvirknislega byggðir og eru mjög dýrir. Eiginkona Christian von Koenigsegg, Halldóra, er íslensk. Hún starfar sem markaðs- og upplýsingafulltrúi hjá  fyrirtækinu.

Þrír aðilar hafa sóst eftir því að kaupa Saab af General Motors. Hinir tveir aðilarnir eru báðir bandarískir. Þeir eru Renco Group sem m.a. framleiðir hernaðarfarartækið Hummer - og Merbanco. Helsti bakhjarl Merbanco er Johnston fjölskyldan sem á stærsta framleiðslufyrirtæki landbúnaðarvéla og tækja í heiminum; AGCO. AGCO framleiðir m.a. Massey Ferguson traktora.

Það er Deutsche Bank sem annast söluna á Saab fyrir hönd General Motors.