Kombat T98

Í Eistlandi er nú byggður stór brynvarinn jeppi sem nefnist Kombat T98. Hann er sagður þola hörðustu skothríð og jarðsprengjur. Bíllinn er handsmíðaður frá grunni en vél og drifbúnaður er aðallega fenginn frá Isuzu. Þetta farartæki er ætlað handa þeim sem telja sig þurfa að gæta vel líftóru sinnar og er markhópurinn ekki síst þjóðhöfðingjar, stórbísnessmenn og mafíósar í róstusamari hornum heimsins. Bíllinn er stór og mikill hlunkur, níðþungur og rándýr, kostar frá 140 þúsund evrum.

http://www.fib.is/myndir/Kombat4.jpg
Kombat T98 á fullri ferð og ekki árennilegur.

Þótt fjöldaframleiddir bílar séu mest áberandi á götum og vegum er alls konar sérsmiði á bílum furðu algeng. Hér á Íslandi hefur sérsmíði á bílum lengi átt sér stað, t.d. á rútum og jeppum og torfærutækjum af ýmsu tagi. Í nokkrum þeirra landa sem næst okkur eru, t.d. Svíþjóð, Danmörku, Hollandi og Bretlandi er það talsvert stór iðnaður að byggja sportbíla. Þekktir bílar af því tagi eru Koenigsegg í Svíþjóð, Spyker í Hollandi og Morgan í Bretlandi sem er með langlífustu vörumerkjum bílasögunnar. Morgan er handsmíðaður að langmestu leyti og undirvagninn er úr tré eins og hann hefur alla tíð verið.

http://www.fib.is/myndir/Kombat3.jpg
Undirvagninn er engin smásmíði.

 En aftur að hinum eistneska Kombat T98. Hann er byggður hjá fyrirtæki sem heitir Combat Armoring Group í Tallin. Ysta klæðning bílsins er úr sex millimetra þykku stáli en fyrir innan hana eru svo skásettar stálplötur til að breyta stefnu byssukúla sem kynnu að fara í gegn um ysta byrðið. Fyrir innan skáplöturnar er svo enn sex millimetra stálplata. Undirvagninn er einnig sérstaklega gerður til að þola jarðsprengjur eins og sjá má af meðfylgjandi mynd er hann enginn smásmíði og eins og nærri má geta er brynvörnin öll slík að bíllinn er níðþungur eða rúmlega fimm tonn að eigin þyngd. Þýska bílatímaritið AutoBild heimsótti nýlega bækistöðvar Combat Armoring Group og fékk að vitað að alls hefðu 40 bílar þá verið byggðir og kaupendurnir væru langflestir viðskiptamenn, aðallega rússneskir.

http://www.fib.is/myndir/Kombat2.jpg
Kombat T98 í smíðum.

 Kombat T98 er 5,60 metra langur. Vélin er V8, 365 ha. 6,6 lítra dísilvél frá GM/Isuzu. Hún kemur þessum níðþunga bíl á 160 km hraða og meðaleyðslan er um 20 lítrar á hundraðið. Kaupendur geta valið um missterka brynvörn en flestir kaupenda velja vörn af styrkleikastuðlinum B6 sem er sagt svipað og gerist um skriðdreka. Hægt mun vera að fá ýmsan vopnabúnað með bílnum en myndavélar sem sýna allt í kring um bílinn eru staðalbúnaður.