Komnir fyrir vind

Söluhorfur fyrir nýja bíla í Bandaríkjunum í nóvembermánuði eru  ágætar að sögn talsmanns Ford á blaðamannafundi sem samband bandarískra bílablaðamanna stóð fyrir í Detroit um helgina. Talsmaðurinn sagði að bandaríski bílaiðnaðurinn væri búinn að ganga í gegnum hreinsunareld sem hófst með kreppunni og hruni í nýbílasölu sl. vetur. Talsmaðurinn sem heitir George Pipas, segir að það versta sé nú afstaðið og að framvegis muni bandarískir bílakaupendur velja annarskonar bíla en hingað til. 

 Sala á nýjum bílum í Bandaríkjunum gekk mjög vel í nýliðnum október. Salan var meiri og betri en um mjög langt skeið og eins og nú horfir er útlit fyrir að nóvembermánuður verði enn betri. Það var eins og átakið Cash for Clunkers í ágúst sl. kæmi bílasölu í USA í gang svo um munaði. Átakið fólst í því að ríkið greiddi veglegt skilagjald fyrir gamla eyðsluháka gegn því að eigandinn fengi sér nýjan sparneytinn bíl. Átakið tókst vonum framar og eftir að því lauk hefur sala nýrra bíla haldið áfram á ágætri siglingu. En Pipas sagði að þótt bílaiðnaðurinn væri að komast fyrir vind þá væri samfélagið allt ennþá að vinda ofan af verstu kreppu sem komið hefði síðan á fjórða áratuginum og áhrifa hennar myndi gæta lengi enn í bílaiðnaðinum og samfélaginu öllu.

 Eitt af fyrstu verkum Barack Obama í Hvíta húsinu var að ná samningum við bandaríska bílaiðnaðinn um nýjar reglur um stórlega minni eyðslu og CO2 útblástur frá bílum. Nýju reglurnar nefnast CAFE-reglurnar, (Corporate Average Fuel Economy) og taka þær gildi árið 2012. Samkvæmt þeim á bílaiðnaðurinn að draga úr meðaltalseyðslu og þar með útblæstri bílanna þannig að bílarnir komist að meðaltali 35,5 mílur á hverju bensíngallonin. Það svarar til eyðslu upp á 6,6 lítra á hundrað km. Þessu meðaleyðslumarki á bílaiðnaðurinn að ná í síðasta lagi árið 2016.

Ekki er þó allt sem sýnist í þessu því að enn sem áður verður bílum skipt upp í flokkana Cars (fólksbílar) og Trucks (jeppar og pallbílar) og má meðaleyðsla „trukkanna“ vera 7,84 lítrar á hundraðið en 6 lítrar á hundraðið hjá fólksbílunum.  Sjá nánar hér. 

 En á bandarískan mælikvarða eru nýju CAFE-reglurnar talsvert róttækar og munu örugglega verða til þess að fjölga verulega sparneytnum bílum. Þá er talið líklegt að bensínverð muni hækka verulega og næsta sumar verði það í sömu hæðum og það var sl. sumar, eða í kring um fjóra dollara gallonið. Það þykir Bandaríkjamönnum óheyrilegt verð þótt það sé einungis um helmingur þess verðs sem Evrópumenn eru vanir að greiða fyrir bensínið.