Kona ársins í evrópska bílaiðnaðinum

Agneta Dahlgren yfirhönnuður C-stærðarflokks bíla hjá Renault.
Agneta Dahlgren yfirhönnuður C-stærðarflokks bíla hjá Renault.

Agneta Dahlgren frá Gautaborg í Svíþjóð, bílahönnuður hjá Renault síðan 1991, hefur verið útnefnd kona ársins 2016 af samtökum kvenna í evrópskum bílaiðnaði.

Agneta Dahlgren hélt til Frakklands árið 1990 til framhaldsnáms í iðnhönnun og réðist ári síðar til Renault. Fyrsta tæpa áratuginn hjá Renault vann hún við að leggja meginlínur í útliti framtíðarbíla, bæði fólks- og flutningabíla. Árið 2009 varð hún forstöðumaður þeirrar deildar Renault sem hannar bíla í C-stærðarflokknum. Þannig er útlit nýjustu Renault Mégane, Renault SCENIC og GRAND SCENIC bílanna hennar hönnunarverk yst sem innst. Reyndar var það Renault sem fyrst kom fram með svokallaða fjölnotabíla eða MPV-bíla fyrir um 20 árum eða þegar Agneta starfaði í framtíðar-hönnunardeildinni. Hinir nýju Renault SCENIC og GRAND SCENIC þykja sérlega vel hannaðir MPV bílar og marka viss tímamót í hönnun slíkra bíla.

Agneta Dahlgren segist við sænska Motormagasinet vera stolt af viðurkenningunni og vonist til að hún verði ungum kven-iðnhönnuðum hvatning til að sækja í farartækja- og bílahönnun ekki síður en almenna iðnhönnun. Bílahönnun sé mjög margþætt og fjölbreytt og því spennandi að fást við, ekki síst fyrir unga kvenhönnuði.