Konur hafa umhverfismildara ökulag

http://www.fib.is/myndir/Kona-keyrir.jpg

Audi í Svíþjóð býður viðskiptavinum sínum upp á námskeið í vistakstri eða Audi Smart Drive (skynsemisaksturslag) eins og það kallast. Á námskeiðunum lærir fólk að spara eldsneyti sem auk þess að hlífa umhverfinu sparar fólkinu sjálfu útgjöld og jafnvel tíma.

Námskeiðið hjá Audi er í sama anda og hið finnska Eco Driving námskeið sem kynnt var hér á landi fyrir fáum árum. Fólki er kennt að aka þannig að eldsneyti sparist sem mest, í fyrsta lagi með því að skipuleggja akstur sinn og haga honum þannig að sem sjaldnast sé verið að stöðva og taka af stað á ný. Halda skal sem jöfnustum hraða, aka í sem hæstum gír og láta vélina sem mest „halda við“ því að meðan hún gerir það þá eyðir hún nákvæmlega engu eldsneyti.

Rannsóknastofnun hefur kannað viðhorf Svía til umhverfismilds ökulags og umhverfismildra bíla fyrir Audi í Svíþjóð. Í þessari rannsókn sýnir það sig að viðhorf kynjanna í þessum málum eru ekki þau sömu.

52 prósent karlkyns ökumanna en einungis 44,8 prósent kvenökumanna telja að þeirra eigin hagur og hagsmunir vegi þyngra en umhverfissjónarmið þegar kaupa á umhverfismildan bíl.

35 prósent sænskra kvenökumanna segist alltaf hafa umhverfisvernd í huga þegar þær aka bíl. 30 prósent karlanna segjast alltaf hafa umhverfisvernd í huga í akstri.

Karlökumenn hafa greinilega mun meiri trú á eigin tækniþekkingu og aksturstækni en konur. 40 prósent kvenökumanna segjast gjarnan vilja þiggja ráð um umhverfismilt aksturslag en einungis 29 prósent karlökumannanna telja sig þurfa á slíku að halda.
Þetta er dálítið sérstakt í ljósi þess að mun fleiri konur en karlar í Svíþjóð hafa sótt námskeið í umhverfismildum akstri.

-Það gleðilegasta í niðurstöðunum er það að yngstu ökumennirnir eru lang áhugasamastir um skynsamlegt og umhverfismilt ökulag, fyrst og fremst út frá umhverfislegum sjónarmiðum en líka út frá eigin hag. Auðvitað geta ekki allir keypt sér nýjan bíl, en það geta allir breytt aksturslagi sínu og það er einkanlega sá boðskapur sem við viljum koma á framfæri með þessu Audi-Smart verkefni okkar, segir Jens Wetterfors framkvæmdastjóri hjá Audi í Svíþjóð við Dagens Nyheter.