Konurnar betri ökumenn

Ný bresk könnun hefur leitt í ljós að konur eru betri ökumenn en karlar. Þær eiga almennt auðveldara með að halda hraðanum í skefjum innan öryggismarka miðað við aðstæður hverju sinni og forðas slys.

Þessi nýjasta rannsókn er ein af mörgum sem gerðar hafa verið undanfarin ár og allar benda í sömu átt. Hún var gerð fyrir breska bílaleigumiðlun sem heitir Carrentals UK. Samkvæmt henni lenda 57% karla í umferðaróhappi en 44% kvenna. Forstjóri bílaleigunnar, sem heitir Gareth Robinson segir að karlar trúi því flestir að þeir séu betri ökumenn en konur. Engu að síður þá sé það staðreynd að þeir séu verri í því að halda hraðanum í skefjum og fá á sig hraðasektir.

Rannsóknin sýnir einnig að 45% karla á aldrinum 36 til 45 ára og 65 ára og eldri hafa verið sektaðir fyrir hraðakstur og 60% karla yfir 65 ára aldri hafa lent í umferðarslysum en einungis 30 prósent kvennanna í báðum aldurshópunum.

Karlmennirnir sem tóku þátt í könnuninni meta mikils akstursfærni og telja sig almennt vera mjög færa á því sviði og mun færari en konurnar. Það gerðu þeir enda þótt svör þeirra við spurningum sem lutu að akstursfærni bentu til annars og þeir eiga mun oftar aðild að umferðarslysum en konurnar.