Kveikið bílljósin þegar skyggja tekur

Flestir nýrra og nýlegra bíla eru með dagljósabúnaði. En ekki átta sig allir á því að afturljósin eru mjög oft ótengd dagljósabúnaðinum í nýrri bílum. Því aka margir um í myrkri eða í þoku og dimmviðri með slökkt afturljós sem augljóslega er stórháskalegt.

Nú er skammdegið gengið í garð. Það dimmir snemma og veður eru umhleypingasöm. Víða um land gengur á með þokum, rigningum og jafnvel snjókomu og skafrenningi og allt of margir ökumenn átta sig ekkert á því að afturljósin eru slökkt þótt aðalljós bílsins lýsi upp veginn framundan. Þeir sem á eftir koma geta af þessum ástæðum ekki séð bílinn á undan sér fyrr en of seint.

Allt of algengt er að sjá í umferðinni, sérstaklega í myrkri og í dimmviðrum bíla með afturljósin slökkt. Þetta er reyndar alls ekkert einsdæmi á Íslandi og í Danmörku hefur FDM, systurfélag FÍB nú hleypt af stað átaki. Það felst í því að hvetja hina akandi til þess einfaldlega að kveikja á ljósunum þegar rökkva tekur og/eða þegar ekið er í þoku eða dimmviðri eða úti á rennvotum vegum.

Því vill FÍB hvetja alla til hins sama. Gott er að byrja á því að ganga úr skugga um það hvort manns eigin bíll er með dagljósabúnaði sem ekki kveikir sjálfvirkt á afturljósunum. Ef svo reynist vera, verður fólk að muna eftir því að kveikja á ljósunum þegar skyggir eða skyggni versnar vegna þoku, bleytu eða skafrennings. Í mörgum bílum kveikir dagljósabúnaðurinn ekki á ljósi í mælaborði og getur það þannig verið vísbending um það hvort ljósin eru kveikt eða ekki.

Starfsfólk FÍB hefur upp á síðkastið fengið fjöldamargar ábendingar frá ökumönnum um afturljósalausa bíla í umferðinni eftir að myrkrið er skollið á. Þessir ljóslausu bílar sjást illa í dimmunni, sérstaklega í rigningum þegar malbikið er kolsvart.

Þegar skylt varð fyrir almörgum árum að aka með ljósin kveikt var gjarnan settur búnaður í eldri bíla sem kveikti sjálfirkt ljósin þegar ekið var af stað og þá kviknuðu lágu ljósin að framan og líka afturljósin. Fljótlega hófu svo framleiðendur að setja dagljósabúnað í bíla sem gerði þetta sama. Árið 2011 breyttust ljósareglurnar hjá Evrópusambandinu þannig að nú nægir að dagljósabúnaðurinn kveiki bara á framljósunum eða sérstökum dagljósum. Þessar nýju reglur hafa valdið nokkrum ruglingi, ekki bara hér á landi heldur líka á hinum Norðurlöndunum þar sem fólk er vant því að það kvikni sjálfvirkt á láguljósunum og afturljósunum samtímis. Nýju reglurnar hafa einfaldlega þau áhrif að nú verða ökumenn að muna eftir því að kveikja sjálfur ljósin þegar ljósatími hefst eða þegar aðstæður krefjast.