Kynlíf í bílnum

Sænskt hjólbarðafyrirtæki sem heitir Vianor hefur staðið fyrir könnun á því í Svíþjóð hvort fólk hafi notið kynlífs í bíl. Tímaritið Motor Magasinet greinir frá þessu. Rúmlega þúsund manns voru spurðir og út frá svörunum er sú ályktun dregin að um sjöundi hver Svíi hafi gert hitt í bíl. Motor Magasinet biður því þá sem sjá bíl lagt afsíðis að sýna nærgætni ef vera kynni að í bílnum sé fólk að njóta ásta.

Hátt í fjórir af hverjum tíu aðspurðra segjast hafa á yngri árum sínum hafi notið kynlífs í bílum en hafi með hækkandi aldri alveg lagt slíkt af enda gefist núorðið ýmsir aðrir og heppilegri staðarvalkostir.

En meðal þess fólks sem enn eru bærilega virkt á kynlífssviðinu má sumsstaðar sjá vissa nýjungagirni: Kona í Stokkhólmi svarar spurningunni – hefurðu nokkru sinni notið ásta í bifreið – þannig: -Nei, en ég gæti vel hugsað mér að prófa það. Miðaldra kona í Smálöndum segist ekki hafa gert það, en á bíl hinsvegar. Þá svarar karlmaður í Mið-Svíþjóð spurningunni svo: -Nei, ekki ennþá, en það hlýtur að koma að því fyrr eða síðar.

Nokkrir svarmöguleikar voru gefnir við spurningunni:

1.    Að sjálfsögðu. Geri það oft svöruðu 1% aðspurðra.
2.    Já, það kemur fyrir svöruðu 15%.
3.    Ekki lengur, en stundum þegar ég var yngri, svöruðu 39%.
4.    Nei, hefur aldrei dottið það í hug svöruðu 23%
5.    Nei. Stunda ekki kynlíf svöruðu 4%.
6-7. Önnur svör voru 4% og 13% neituðu að svara.