Lada Sport með þeim langlífari

Vantar þig ódýran og einfaldan jeppling sem er í lagi í þéttbýlisakstri og mjög duglegur í torfærum og á vondum vegum? Ef þú leggur ekkert sérstaklega upp úr rafdrifnum rúðuvindum, samlæsingu fyrir hurðirnar þrjár, ESC skrensvörn og flottu upplýsinga- og hljóðkerfi þá gæti nýr Lada Niva verið bíll handa þér.

Ekkert formlegt sölu- og þjónustuumboð er þó lengur hér á landi fyrir Lada Niva eða Lada Sport eins og bíllinn kallaðist hér á landi af innflytjandanum sem var Bifreiðar og landbúnaðarvélar, nú BL. Fáeinir nýir bílar hafa þó komið af og til hingað á vegum hérlendrar bílaleigu í því skyni að uppfylla óskir evrópskra ferðamanna.

En Lada Niva er semsé ennþá framleiddur í Togliatti á bökkum Volgufljóts í Rússlandi og verksmiðjan er nú í meirihlutaeigu Nissan-Renault. Meginhluti framleiðslunnar fer á Rússlandsmarkað en bíllinn selst líka jafnt og þétt á meginlandi Evrópu, einkum Þýsklandi. Allmörg innflutnings-, sölu- og þjónustuumboð eru fyrir Lada bíla í Þýskalandi og fleiri Evrópulöndum og a.m.k. eitt slíkt er í Svíþjóð.  Miðað við uppgefið verð fyrir Lada Niva þar gæti bíllinn kostað hér kominn á götuna 2 til 2,5 milljónir kr.

Lada Niva er orðinn meðal langlífari bíla bílasögunnar. Hann kom fyrst á markað árið 1977 og hefur lítið breyst á þessum 37 árum. Vélin er meira að segja mikið til eins og í upphafi nema að rúmtak hennar sem var 1,6 lítrar er orðið 1,7 og í stað tímakeðju er komin tímareim og í stað blöndungs er komin eldsneytisinnsprautun. Aflið er 80 hestöfl sem dugar til að koma bílnum úr kyrrstöðu í hundraðið á 22 sekúndum og hámarkshraðinn er137 km á klst. Þetta er því augljóslega ekki nein hraðbrautaraketta, en fínn bíll á krókóttum og holóttum olíumalar- og malarvegum Íslands með sína mjúku slaglöngu fjöðrun, fimm gíra gírkassa, læsanlegt fjórhjóladrif og hátt og lágt drif.