Lagðir verða 43 km af malbiki í Reykjavík í ár
Borgarráð Reykjavíkur hefur heimilað umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út malbikunarframkvæmdir fyrir árið 2018. Alls verða lagðir 43 kílómetrar af malbiki næsta sumar og er kostnaður áætlaður tæpir tveir milljarðar króna. Aldrei hafi verið malbikað jafn mikið í borginni á einu ári.
Um er að ræða bæði malbikun yfirlaga sem og endurnýjun með fræsingu og malbikun. Lagt er til að 43 kílómetrar af götum borgarinnar verði malbikaðir sem er algjört met í malbikun á einu ári. Það eru um 10% af heildarlengd gatnakerfisins í Reykjavík. Kostnaðaráætlun fyrir malbikun yfirlaga er 1.740 milljarðar en að auki verður unnið við malbiksviðgerðir og er kostnaður við þær áætlaður 237 milljónir króna.
Framkvæmdir ársins 2018 eru í samræmi við áætlun um endurnýjun á malbiki á götum Reykjavíkurborgar til næstu fimm ára. Samkvæmt fjárhagsáætlun 2018-2022 er gert ráð fyrir rúmum sex milljörðum króna til endurnýjunar á malbiksyfirlögum auk hefðbundinna malbiksviðgerða.
Áhersla verður lögð á umferðarmiklar götur með hátt þjónustustig. Að auki verður endurnýjað malbik á götum þar sem framkvæmdir við endurnýjun gatna fara fram einkum í miðborginni.