Lamborghini Urus

Lamborghini ofursportbílafyrirtækið ítalska (sem er í eigu Volkswagen)  hefur sent frá sér fyrstu myndir af nýjum jepplingi eða SUV, (Sport-Utility Vehicle). Bíllinn er að vísu enn á hugmyndarstiginu en ekki er búist við miklum breytingum héðanaf áður en fjöldaframleiðsla hefst - líklega í kring um árið 2015. Kannski er fullmikið að tala um fjöldaframleiðslu hjá Lamborghini þar sem heildarframleiðsla fyrirtækisins er undir þrjú þúsund bílum á ári.

Nýja farartækið nefnist Urus og er vel stórt – fimm metra langur bíll á 24 tomma hjólum. Upplýsingar um innviði bílsins og væntanlegt vélaval eru rýrar. Hið eina sem sagt er í fréttatilkynningu er að aflið verði kring um 600 hestöfl. En þar sem Lamborghini framleiðir einungis tvær vélar þá hefði kannski mátt ætla að höfundum fréttatilkynningarinnar um Urus jepplinginn hefði verið innanhandar að taka það fram hvor þeirra yrði undir húddinu á Urus; V-10 vélin úr Gallardo eða V-12 vélin úr Aventador.

Urus, sem nú er til sýnis á bílasýningunni í Peking, er annar fjórhjóladrifsbíllinn í sögu Laborghini. Sá fyrri leit dagsins ljós árið 1986 og hafi gerðarheitið LM002. Sá var einskonar blendingur hernaðartækis og landbúnaðarjeppa og þótti eyða óheyrilega miklu bensíni eða hátt í hundrað lítrum á hundraðið að því haft hefur verið eftir fyrrum eiganda slíks bíls.