Land Rover Defender best hannaði bíllinn

Land Rover Defender var í vikunni kjörinn best hannaði bíll ársins 2021 (World Car Design of the Year 2021) á árlegri verðlaunahátíð World Car Awards í Toronto sem af sóttvarnaástæðum var send út í streymi á netinu.

Þetta er í sjötta sinn sem Jaguar Land Rover hlýtur fyrstu verðlaun fyrir fallega hönnun hjá World Car Awards og hefur enginn af helstu bílaframleiðendum heims hlotið verðlaunin jafn oft og Jaguar Land Rover.

World Car Awards hafa verið veitt undanfarin sautján ár. Árið 2012 var Range Rover Evoque kjörinn fallegasti bíll ársins, Jaguar F-Type ári síðar, F-PACE árið 2017, Range Rover Velar árið 2018 og ári síðar Jaguar I-PACE. Nú var komið að Land Rover Defender sem 93 blaðamenn frá 28 löndum veittu hönnunarverðlaun ársins 2021.