Land Rover Defender sleginn af

Land Rover Defender sleginn af
Land Rover Defender sleginn af

Jaguar Land Rover hefur tilkynnt að framleiðslu á gamla vinnuhestinum Land Rover Defender verði hætt snemma á næsta ári eftir samfellt 70 ár. Fyrir tæpum áratug var samskonar tilkynning send út. En þá brá svo við að eftirspurn jókst svo mjög að hætt var við áformin. En í þetta sinn mun ákvörðunin vera endanleg. Jeppinn sem um áratugi hefur verið elskaður og dáður hvarvetna af allskonar fólki, jafnt bændum sem konungbornum og allt þar í milli verður sleginn af strax í janúar nk.

Landróverinn hefur öll þessi 70 ár furðu lítið breyst í útliti. Hann hefur lengstum verið tákn og nokkurskonar heimssamnefnari fyrir bíla sem henta vel í alls kyns slark og torfærur enda þótt segja megi að sem torfærutæki er óbreyttur Land Rover ekkert sérstakur. Mestar urðu vinsældir hans á Íslandi á árunum milli 1960-1970 þegar varla nokkur bílamanneskja fyrirfannst sem ekki gat hugsað sér að eignast Land Rover. Meðal heimsþekktra ökumanna Landróvers má nefna Winston Churchill og Elísabetu Bretadrottningu. Landróverar hafa verið notaðir í stríðsátökum víða, t.d. í Kóreustríðinu og mörgum síðari og þeim bregður fyrir í fjölda kvikmynda.

Land Rover Defender er í raun löngu úreltur. Kantaðar útlínur hans og horn eru löngu úr takti við flesta staðla sem nú gilda um öryggi fólksins innan og utan bílsins. Þá er CO2 útblástur frá honum tvöfaldur miðað við meðaltal sambærilegra farartækja. „Það er kominn tími til að hefja nýjan kafla,“ segir Nick Rogers yfirverkfræðingur hjá Jaguar Land Rover við Automotive News. Hann nefnir hins vegar ekkert um hverskonar bíll það verði sem kemur í staðinn.