Land Rover og Jaguar verða indverskir

The image “http://www.fib.is/myndir/Jaguar_1.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Jaguar.

Nú þykir  ljóst að indverska bílafyrirtækið Tata er að eignast bæði Jaguar og Land Rover, hin söguríku bresku bílamerki. Merkin hafa undanfarin ár verið í eigu Ford sem  neyðst hefur til að selja vegna erfiðleika í Bandaríkjunum. Erlendir fjölmiðlar greina frá því að samningar séu í höfn og kaupsamningar verði undirritaðir um áramótin.

Þrjú fyrirtæki hafa bitist um að eignast hins sögufrægu bílamerki. Þau eru auk Tata annað indverskt bílafyrirtæki sem heitir Mahindra og bandarískt fjárfestingafélag sem heitir One Equity. Gangi kaupin eftir verður þetta í fyrsta sinn sem indverskt fyrirtæki eignast vestrænt bílaframleiðslufyrirtæki. Tata er með margþætta starfsemi, þar á meðal bílaframleiðslu og framleiðir bíla undir eigin nafni, sem og sendi- og vörubíla undir merkjum Fiat.

Um 15 þúsund manns starfa hjá Jaguar og Land Rover í Bretlandi. Deilur hafa verið uppi milli fyrirtækjanna og starfsmanna um laun en ekki síst eftirlaun. Tata mun taka þessi mál í arf þar sem þau eru enn óleyst.