Land Rover uppáhald breskra bílþjófa

Breska tryggingafélagið Swiftcover hefur fundið það út að sá bíll í Bretlandi sem hættast er við að lenda í þjófahöndum er Land Rover Defender. Tvær helstu ástæður þessa eru að endursöluverðið er hátt og þjófnaðarvarnir bílsins harla fátæklegar. Þetta er niðurstaða greiningar á 2.300 skýrslum um bílaþjófnaði sem áttu sér stað á tímabilinu 1. febrúar 2011 til 31. janúar 2012. Í úrvinnslunni og útreikningunum var miðað við heildarfjölda bíla í umferð í Bretlandi og er niðurstaðan sú að 4% líkur eru á því að brotist verði inn í Land Rover Defender og honum stolið. Sá sem næstur Landróvernum er BMW 7 línan með 3,35% líkur. Í þriðja sætinu er svo Audi A5 með 3% líkur.

Talsmaður tryggingafélagsins segir við fjölmiðla að niðurstöðurnar komi nokkuð á ávart, ekki síst með dýru lúxusbílana því að í þeim flestum er viðvörunarflauta sem fer í gang ef reynt er að brjótast inn í þá, auk þess sem þeim er oftar lagt á öruggari stöðum en öðrum bílum. En rannsóknin sýni að enginn einasti bíll er óstelanlegur og jafnvel háværustu flautur megni ekki að stöðva bílþjófana.

Talsmaðurinn segir ennfremur að margir bílanna sem stolið er séu fluttir úr landi og seldir þar, ýmist í heilu lagi eða í pörtum. Auðvelt sé fyrir þjófana að losa sig við bíla sem njóta alþjóðlegra vinsælda, eins og Land Rover Defender vissulega gerir.

En svona lítur topp tíu listi breskra bílaþjófa út:

Vinsældaröð 2011/2012

Bíltegund og gerð

Þjófnaðarlíkur

1

Land Rover Defender

4%

2

BMW 7-línan

3,35%

3

Audi A5

3%

4

BMW X5

1,7%

5

Mercedes ML

1,57%

6

Range Rover

1,55%

7

Audi TT

1,51%

8

BMW Z4

1,47%

9

Audi A3

1,45%

10

Renault Laguna

1,37%