Land Rover valt í „elgsprófi“
Valt á 60 í elgsprófinu.
Land Rover Defender sem var í reynsluakstri hjá þýska tímaritinu Auto Motor & Sport valt í svonefndu elgsprófi í vikunni. Elgsprófið er í grófum dráttum þannig að teknar eru skarpar beygjur eða krákustígar framhjá keilum sem raðað er upp í beinni línu.
Elgsprófið er gert til að kanna stöðugleika og svörun bíla í neyðarástandi líku því sem yrði ef t.d. barn eða dýr hlypi út á veginn framan við bílinn. Keilunum er raðað upp með tilteknu millibili til að fá raunhæfan samanburð milli bílategunda og –gerða. Fyrir um áratug valt Mercedes A í elgsprófi hjá sænskum bílablaðamanni og komst atburðurinn og eftirmálar hans í heimsfréttir.
Velflestir nútíma fólksbílar og jafnvel jeppar ráða tiltölulega auðveldlega við elgsprófið á 60 km hraða. En Land Rover Defender er í grunninn upprunalegi Landróverinn frá því um miðja síðustu öld. Þótt fjölmargar endurbætur hafi verið gerðar á bílnum í áranna rás þá vantar enn í hann ESC stöðugleikabúnað og bremsurnar, sem að vísu eru diskabremsur við framhjólin, standast ekki lágmarkskröfur að mati Þjóðverjanna sem voru að reynsluaka bílnum.
Ökumanninn og samstarfsmann hans sakaði ekki. Þeir sögðu eftir veltuna að ástæður hennar væru þær helstar að jeppinn er með afar slaglanga gormafjöðrun, þyngdarpunkturinn liggur hátt og stýrið er mjög ónákvæmt. Til viðbótar þessu var ekki ESC stöðugleikakerfi í bílnum en það er ófáanlegt í Land Rover Defender. Þá gagnrýna þeir ennfremur að loftpúðar séu líka ófáanlegir í þennan bíl.
Bremsurnar fá líka afleita útreið hjá Þjóðverjunum. Hjá þeim þurfti óhlaðinn Defender með kaldar bremsur á 100 km hraða 54 metra til að stansa. Til samanburðar þurfti Jeep Wrangler 42 metra.