Landeyjahöfn tekin í notkun

Landeyjahöfn var tekin í notkun í gær þegar Herjólfur sigldi fyrstu ferðina frá Heimaey til Landeyjahafnar með gesti og fjölda Eyjamanna í blíðskaparveðri. Þá var nokkur mannfjöldi saman komin við höfnina til fagna komu skipsins sem var fánum skreytt. Herjólfur hóf síðan siglingar samkvæmt áætlun í morgun.

Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, klippti á borða með aðstoð þeirra   Hermanns Guðjónssonar siglingamálastjóra, Elliða Vignissonar, bæjarstjóra Vestmannaeyja, Ísólfs Gylfa Pálmasonar, sveitarstjóra Rangárþings eystra, og skipstjóranna Steinars Magnússonar og Ívars Gunnlaugssonar. Þriðji skipstjórinn, Guðlaugur Ólafsson, var í hópi félaga sinna í Lúðrasveit Vestmannaeyja sem lék bæði við brottför frá Eyjum og við komuna í Landeyjahöfn.

Fram kom í máli samgönguráðherra á þessum merku tímamótum að Landeyjahöfn væri ekki aðeins mannvirki heldur líka þrekvirki.  Hann sagði að allir sem lagt hefðu hönd á plóginn mættu vera stoltir af verkinu. Ráðherra fór yfir forsögu og aðdraganda hafnargerðarinnar og sagði meðal annars:  ,,Við erum hreykin af þessu mannvirki og öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn;  sérfræðingunum sem sýndu fram á  með rannsóknum sínum og vísindum að þetta væri gerlegt, sjómönnunum sem lögðu á ráðin með sérfræðingunum og þeim baráttumönnum og stjórnmálamönnum á Alþingi og í sveitarstjórnum sem höfðu framsýni til að taka af skarið og leggja á þetta djúp. Hönnuðir, reiknimeistarar og verktakar eiga einnig mikið hrós skilið.  Allir hafa þeir nýtt til hins ítrasta útsjónarsemi og verkkunnáttu sem þetta mikla verkefni krafðist.”

Eins og fyrr segir hóf Herjólfur áætlunarsiglingar í morgun og sögðu skipstjórar bílaþilfar hafa verið fullt og talsvert af farþegum. Framundan er annahelgi hjá Herjólfi þegar Vestmannaeyingar halda þjóðhátíð sína um verslunarmannahelgina. Herjólfur siglir þá allt  uppí átta ferðir suma dagana en venjubundin áætlun gerir ráð fyrir fjórum til fimm ferðum á dag.

Sjá nánar á heimasíðu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins: 

http://www.samgonguraduneyti.is/malaflokkar/sigloghafn/frettir/nr/3211