Látinna minnst

Starfshópur innanríkisráðuneytisins um áratug aðgerða í umferðaröryggismálum gekkst kl. 11.00 í gær fyrir einnar mínútu þögn til minningar um fórnarlömb umferðarslysa. Meðal þeirra sem átt tóku í athöfninni voru forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson og fólk sem stöðu- og atvinnu sinnar vegna fæst við afleiðingar slysanna.

Í frétt á vef Umferðarstofu segir að á hverju ári látast um 1,2 - 1,4 milljónir manna í umferðarslysum í heiminum og hundruð þúsunda verða fyrir varanlegum skaða. Frá H-deginum 26. maí 1968 þegar skipt var yfir í hægri umferð á Íslandi, hafa samtals 958 manns látið lífið í umferðinni hér á landi samkvæmt upplýsingum úr slysaskrá Umferðarstofu. Það er í tölulegu samhengi hlutanna sambærilegt við það að á þessum rúmu 43 árum hafi rúmlega fjöldi íbúa Blönduósbæjar látist í umferðinni hér á landi. Gera má ráð fyrir að á sama tímabili hafi allt að 9000 manns slasast alvarlega í umferðinni.

U.þ.b. 2% allra dauðsfalla í heiminum eru af völdum umferðarslysa og er þetta hærra hlutfall en fjöldi þeirra sem látast t.d. af völdum berkla og malaríu. Banaslys í umferðinni eru algengasta dánarorsök ungs fólks í heiminum í dag og það sem af er árinu hafa 12 manns látist í umferðinni hér á landi. Þar af er helmingur þeirra 17 ára og yngri. Fjórir voru 17 ára, ein 13 ára stúlka og eitt 6 ára gamalt barn.

Í upplýsingum um algengustu dánarmein ungs fólks á Íslandi á aldrinum 17 - 26 ára kemur fram að á árunum 1999 til 2008 voru umferðarslys algengasta dánarörsök kvenna á þessum aldri og er hún tvöfalt algengari dánarorsök en sjálfsvíg sem er næst algengasta orsök ótímabærs dauða.