Lausn á vanda Ford Kuga eigenda í sjónmáli

Síðastliðið haust greindi Ford bílaframleiðandinn frá því að eftir yfirgripsmikið prófunarferli við þróun Ford Kuga endurhlaðanlega tvinnbílsins hafi komið í ljós að nokkur fjöldi af þessari bílategund hafði lent í vandræðum með að loftræsa hita frá háspennu í rafhlöðunni.

Ford hefur síðan unnið með sínu tæknifóki að rót vandans og leitað að lausn til framtíðar litið. Það hefur tekið lengri tíma en haldið var í fyrstu. Nú berast fréttir frá Ford í Danmörku að um þessar mundir séu hafin skipti á batteríum þar í landi. Eigendur Ford Kuga í Danmörku geta því gert sér vonir um að geta fljótlega ekið rafmagni aftur. Skipt verður um háspennurafhlöðu í bílunum svo að eigendurnir geti hlaðið tengibifreiðina sína aftur.

Sömu bilanir komu fram hjá nokkrum eigendum Ford Kuga hér á landi. Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, segir í samtali við FÍB að loksins sé farin að sjást lausn í málinu.

,,Framleiðandi bílanna hefur verið undir stöðugri pressu en nú er komin hreyfing á málin. Við sjáum fyrir okkur að rafhlöðurnar leggi af stað til landsins í skipi í næstu viku. Við munum skipta út batteríum í öllum bílunum, 25 talsins. Við höfum reynt að koma til móts við eigendur á meðan þetta ástand hefur varað. Þeir hafa fengið frítt eldsneyti þar sem ekki hefur verið hægt að keyra á rafmagninu. Við höfum frá upphafi haldið okkar viðskiptavinum vel upplýstum í þessu máli,“ segir Egill Jóhannsson. Þess má geta að fimm ára ábyrgð er á öllum Ford bílum, gildir það eingöngu um bíla sem keyptir eru af Brimborg.

Samkvæmt Ford í Danmörku er gert ráð er ráð fyrir að búið verði að skipta út batteríum í miklum fjölda bíla í Danmörku í apríl gangi áætlanir í þeim efnum eftir.

Viðskiptavinir víðast hvar í Evrópu voru ekki  sáttir með viðbrögð Ford framan af og fannst seingangurinn hafa valdið þeim óþægindum. Í nokkrum löndum, þar á meðal á Íslandi, var eigendum sem orðið höfðu fyrir óþægindum vegna þessa boðið gjafabréf til bensínkaupa uns lausn fengist á vandanum.